Tix.is

  • 15. jan. - kl. 20:00
Miðaverð:3.000 - 4.500 kr.
Um viðburðinn

Ath. Að hámarki 50 gestir eru leyfðir á hverja tónleika og því verður ekki krafist hraðprófa.

Þegar fjallað er um líf Robert Schumanns beinist athyglin einatt að skaplyndi hans, dramatík í kringum tilhugalíf þeirra Clöru og þeim veikindum sem ollu ótímabærum dauða tónskáldsins. Það vill stundum gleymast að hann var mikill frumkvöðull og sú staðreynd að hann og Clara áttu afar farsælt hjónaband og blessunarrík ár saman vill falla í skuggann. Þau hvöttu hvort annað til dáða og hvert um sig átti mikinn þátt í listrænum þroska, frama og velgengni hins. Í dagskránni Hjónabandssæla verður kafað í samskipti þeirra, heimilishald og fjölskyldulíf, sem og samstarfið í listinni. Með stuðningi heimilda úr bréfaskriftum þeirra og ævisögum verður varpað ljósi á hvað þurfti til, til að lifa af listinni á þessum tíma, þann stuðning sem þau veittu hvort öðru og allt sem tengdi þau svo sterkum böndum.


Flytjendur:

Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran

Erna Vala Arnardóttir, píanó


Efnisskrá:

Erstes Grün – Op. 35 nr.4

Der Nussbaum – Úr Myrten, Op. 25 nr. 3

Seit ich Ihn Gesehen – Úr Frauenliebe und Leben, Op. 42 nr. 1

Er, der herrlichste von allen – Op. 42 nr. 1

Mondnacht – Úr Liederkreis, Op. 39 nr. 5

Lied der Suleika – Úr Myrten, Op. 25 nr. 9

Singet nicht in Trauertönen – Op. 98a nr. 7

Was will die einsame Träne – Úr Myrten, Op. 25 nr. 21

Widmung – Úr Myrten, Op. 25 nr. 1


Hlín Pétursdóttir Behrens er listrænn stjórnandi og einn af stofnendum Austuróps, félags um óperuflutning og tónleikahald á Austurlandi. Í tíð sinni sem formaður FÍT – klassískrar deildar FÍH stofnaði hún tónleikaröðina Velkomin heim og var umsjónarmaður Klassíkur í Vatnsmýrinni. Hlín hóf söngnám sitt við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Sieglinde Kahmann og tók síðar lokapróf frá óperudeild Tónlistarháskólans í Hamborg. Hún starfaði sem óperusöngkona á meginlandi Evrópu um tólf ára skeið, lengst af var hún fastráðin við Staatstheater am Gärtnerplatz í München en kom einnig fram sem gestasöngvari meðal annars í Stuttgart, Karlsruhe, Bonn, Bremen, Nürnberg og Frankfurt, í Austurríki, Sviss og Frakklandi. Meðal óperuhlutverka hennar eru Despina, Zerlina, 1. dama, Papagena og Blonde, Sophie, Najade, Musetta, Frasquita og Olympia, auk fjölda óperettuhlutverka. Við Íslensku óperuna söng Hlín Musettu og Clorindu, en einnig Ännchen í Sumaróperunni á Listahátíð. Á tónleikasviðinu hefur Hlín sungið flest höfuðverk kirkjubókmenntanna, en einnig Les Noces eftir Stravinsky og Carmina Burana eftir Carl Orff. Meðal náinna samstarfsmanna Hlínar á ljóðatónleikum má nefna Hrefnu Unni Eggertsdóttur, Hrönn Þráinsdóttur, Péter Máté, Stefan Matthewes og Gerrit Schuil. Hlín hefur sungið ljóðatónlist rómantíska tímabilsins, franska tónlist, ljóðasöngva Hugo Wolf og Richard Strauss, en einnig lagt áherslu á verk tuttugustu aldarinnar, eins og Korngold, Zemlinsky, Benjamin Britten og fjölda íslenskra tónskálda. Hún hefur frumflutt fjölda verka íslenskra höfunda og meðal annars komið fram á Hljóðön í Hafnarfirði, þar sem hún söng verk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Kaiju Saariaho, og Myrkum músíkdögum þar sem hún flutti tónlist eftir áðurnefnda höfunda og Unu Sveinbjarnardóttur, og Sumartónleikum í Skálholti, en einnig sungið tónleika í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi, Bandaríkunum og Kína. Hlín kenndi um árabil við Tónlistarskólann í Reykjavík, Söngskóla Sigurðar Demetz og Listaháskólann, en kennir nú við Tónlistarskólann á Egilsstöðum og Tónlistarskólann í Fellabæ.


Erna Vala Arnardóttir píanóleikari hefur komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu ár og unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Þar má helst nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands árið 2018 og fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA-píanókeppninnar á Íslandi. Erna Vala hefur leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Hún hefur einnig komið fram sem gestalistamaður ýmissa hátíða, til dæmis Arctic Initiative í Washington D.C., Albignac Piano Festival í Frakklandi og Trinity Laban-samtímalistahátíðar í London. Erna Vala stofnaði menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Félagið heldur tónlistarhátíðina Seiglu í Hörpu og Sigurjónssafni og Erna Vala er listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Erna Vala lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki hjá Hömsu Juris. Hún vinnur nú að doktorsnámi sínu við USC Thornton School of Music í Kaliforníu sem Fulbright-nemi undir kennslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu og diplóma í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté. Hún hefur hlotið góða styrki til náms; Rótarýstyrk árið 2021, minningarstyrk um Birgi Einarsson 2020 og 2017, minningarstyrk um Jón Stefánsson 2019, minningarstyrk um Halldór Hansen 2018 og námsstyrk Landsbankans árið 2017. Þá var hún ein verðlaunahafa Ungra einleikara árið 2014.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH.


Nemendur, eldri borgarar og meðlimir Schumannfélagsins njóta afsláttarkjara á viðburði Seiglu. Þá þarf að framvísa skilríkjum til að sýna fram á aðild að félaginu eða staðfestingu á skólavist.