Tix.is

Um viðburðinn

Ath. Að hámarki 50 gestir eru leyfðir á hverja tónleika og því verður ekki krafist hraðprófa.

Um viðburðinn

Sigrún López Jack og Erna Vala Arnardóttir flytja frönsk og rússnesk sönglög sem blása í brjóst von um betri daga. Með ljóðum eftir ljóðskáld og tónskáld frá ólíkum bakgrunnum munum við kanna mannlega getu til þess að þola, yfirstíga og þroskast í kærleika hvert til annars.


Flytjendur:

Sigrún López Jack, sópran

Erna Vala Arnardóttir, píanóleikari

Efnisskrá:

Chausson: Le colibri, Op. 2 nr. 7

Debussy: Fêtes galantes I

Dupark: Chanson triste

L’invitation au voyage

Ravel: Cinq mélodies populaires grecques

Tchaikovsky: Innan um hávaðasama dansleikinn

Rubinstein: Nótt

Rakhmanínov: Morgunn

Sílósur

Lindarvötn

Í þögn leyninæturinnar

Ég bíð eftir þér

 

Sigrún López Jack er íslensk og mexíkönsk mezzo-sópran söngkona. Hún hefur fengið að njóta þess að syngja með sinfóníuhljómsveitum, á ljóðatónleikum og koma fram á óperusviði. Hún hefur alltaf verið opin fyrir því að takast á við krefjandi verkefni og á því að flytja ýmsar tegundir af tónlist, og hefur meðal annars sungið fyrir sjónvarpsstöðvar, inn á auglýsingar, útvarpsmessur fyrir Ríkisútvarpið og fjölda nýrra verka eftir ung Bandarísk tónskáld. Þó hefur Sigrúnu alltaf þótt einstaklega vænt um sönglagalist. Í dag er hún að sérhæfa sig í kassískri rússneskri söngtónlist en hún hefur mikinn eldmóð fyrir að kynna rússneska ljóðatónlist fyrir íslenskum áheyrendum, með því að flytja lög eftir rússnesk tónskáld á rússnesku og kenna ungum söngvurum praktískar leiðir til þess að læra rússneskan framburð og framkomustíl. Sigrún hefur á undanförnum árum stundað nám hjá Alinu Dubik við Nýja tónlistarskólann og Tónlistarskólann í Reykjavík. Árið 2020 lauk hún meistaranámi í klassískum sönglistum við USC Thornton School of Music í Los Angeles, Kaliforníu þar sem hún lærði hjá Rod GIlfry. Þar á eftir hlaut hún fullan námsstyrk (Stern Fellow) til þess að taka þátt í Song Fest; tónlistarhátíð sem einblínir á sönglög, í samstarfi við fremstu tónskáld og píanóleikara Bandaríkjanna.


Erna Vala Arnardóttir píanóleikari fæddist 1995. Hún hefur komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu ár. Meðal viðurkenninga sem hún hefur hlotið má helst nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands árið 2018 og fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA-píanókeppninnar á Íslandi árið 2015. Erna Vala lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2015 sem einn sigurvegari Ungra einleikara. Hún lék einnig einleik með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 2017. Erna Vala stofnaði Íslenska Schumannfélagið árið 2020 og starfar sem formaður þess. Félagið stofnaði tónlistarhátíðina Seiglu sumarið 2021 og er hún listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Erna Vala lauk bakkalárgráðu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté 2017 og lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris vorið 2019. Hún hóf svo doktorsnám við USC Thornton School of Music í Kaliforníu sem Fulbright-styrkþegi undir handleiðslu Bernadene Blaha haustið 2019. Hún hefur hlotið fleiri góða styrki til náms; Rótarýstyrk 2021, minningarstyrk um Birgi Einarsson 2020 og 2017, minningarstyrk um Jón Stefánsson, minningarstyrk um Halldór Hansen og námsstyrk Landsbankans. Erna Vala er nú búsett í Reykjavík og tekur virkan þátt í flutningi einleiks- og kammertónlistar á Íslandi. Hún stundar meistaranám í hljóðfærakennslufræði við LHÍ og kennir á píanó við Tónlistarskóla Kópavogs og Nýja tónlistarskólann.

Tónlistarhátíðin Seigla er haldin af Íslenska Schumannfélaginu og er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Styrktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, Tónlistarsjóði Rannís, Barnamenningarsjóði og Menningarsjóði FÍH. 


Nemendur, eldri borgarar og meðlimir Schumannfélagsins njóta afsláttarkjara á viðburði Seiglu. Þá þarf að framvísa skilríkjum til að sýna fram á aðild að félaginu eða staðfestingu á skólavist.