Tix.is

Um viðburðinn

Sinfóníuhljómsveit Íslands  heldur sérstaka samstöðutónleika með úkraínsku þjóðinni og mun allur ágóði af miðasölu tónleikanna renna óskiptur til hjálpar Úkraínu.

Meistaraverk eftir þrjú af dáðustu tónskáldum sögunnar hljóma á þessum tónleikum ásamt verki eftir úkraínska tónskáldið Valentin Silvestrov. Silvestrov, sem er fæddur árið 1937, er eitt dáðasta tónskáld Úkraínu. Heimsathygli vakti þegar honum tókst að flýja Kænugarð í fylgd erlendra blaðamanna í byrjun marsmánaðar og komst heill á húfi til Berlínar þar sem hann dvelur nú. Verkið Sendiboðinn frá árinu 1996 hefur farið sigurför um heiminn, hrífandi minning um fortíð í tónum.

Einnig hljómar tregafull aría Matteusarpassíu Bachs, auðmjúk bæn um miskunn sem á vel við á þessum róstursömu tímum.

Wolfgang Amadeus Mozart samdi fiðlukonserta sína á unglingsárum en þeir eru stórfenglegar tónsmíðar sem bera vott um mikla náðargáfu. Sá fimmti og síðasti í röðinni er einkar tilþrifamikill, og í lokaþættinum bregður fyrir áhrifum af hernaðartónlist Tyrkja, en hún varð austurrískum tónskáldum gjarnan innblástur einmitt á árunum um 1775 þegar konsertinn varð til.  

Sjöunda sinfónía Beethovens er ein hans dáðasta tónsmíð, lífleg og angurvær til skiptis. Sérstökum vinsældum hefur annar kafli verksins náð, hrífandi stef með tregafullum undirtóni, en hann hljómaði meðal annars í kvikmyndinni The King's Speech. 

Hildigunnur Einarsdóttir syngur einsöng í aríu Bachs, en hún hefur hlotið mikið lof fyrir söng sinn og tók meðal annars þátt í flutningi Matteusarpassíunnar í Hallgrímskirkju árið 2018.  

Simos Papanas er einn fremsti fiðluleikari Grikklands og margrómaður fyrir innblásna túlkun sína. Hann hefur meðal annars hljóðritað fyrir Deutsche Grammophon og komið fram á Verbier-hátíðinni, en gegnir einnig stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þessalóníku. 

Kornilios Michailidis er staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2021–22. Hann stundaði píanónám í París og Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í hljómsveitarstjórn við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki árið 2018. Hann var aðstoðarstjórnandi Finnsku útvarpshljómsveitarinnar 2016–17 og gegndi sömu stöðu við Fílharmóníusveit franska útvarpsins á árunum 2018–20. Hann hefur stjórnað fjölda hljómsveita og einnig við óperuhús, meðal annars Töfraflautu Mozarts við Teatro Real í Madrid, auk þess sem hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti og Grísku útvarpshljómsveitinni.   

Njóttu kvöldstundar með Sinfóníunni og leggðu í leiðinni þitt af mörkum til stuðnings úkraínsku þjóðinni.

Efnisskrá 
Valentin Silvestrov: Sendiboðinn (Der Bote)
Johann Sebastian Bach: Erbarme dich, mein Gott úr Matteusarpassíunni
Wolfgang Amadeus Mozart: Fiðlukonsert nr. 5
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 7 

Einsöngvari
Hildigunnur Einarsdóttir 

Einleikari
Simos Papanas einleikari

Hljómsveitarstjóri
Kornilios Michailidis 

Kynnir
Halla Oddný Magnúsdóttir