Tix.is

Um viðburðinn

Sólríkir tónar í júní.

Tvö kammerverk eru á efnisskránni samin við upphaf 19 aldar. Verkin eru full af birtu og léttleika þar sem klassíkin og rómantíkin mætast í samhljómi klarinettu og strengja og heyrast þau nú þegar sólin skín hæst á lofti.

Fluttur verður kvartett fyrir klarinettu og strengjatríó eftir sænsk-finnska tónskáldið Bernhard Crusell, glæsileg og gásgafull tónsmíð og kvintett fyrir klarinettu, fiðlu, tvær víólur og selló eftir tékkneska tónskáldið Franz Krommer þar sem þéttur kammerhljómur og léttleiki eru áberandi í þessu fallega verki.

Efnisskrá:
Bernhard Hendrik Crusell : Kvartett fyrir klarinettu og strengi í Es Dúr op.2 no.1
Franz Krommer:  Kvintett fyrir klarinettu, fiðlu, 2 víólur og selló í B Dúr op.95

Flytjendur:
Camerarctica:

Ármann Helgason klarinett
Hildigunnur Halldórsdóttir fiðla
Svava Bernharðsdóttir víóla
Guðrún Þórarinsdóttir víóla
Sigurður Halldórsson selló

Tónlistarhópurinn Camerarctica hefur starfað frá árinu 1993, um það leyti sem hljóðfæraleikararnir komu heim frá námi við tónlistarháskóla erlendis. Félagar hópsins hafa meðal annars leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kennt hljóðfæraleik við tónlistarskólana á höfuðborgarsvæðinu og komið víða fram sem einleikarar.

Camerarctica hefur vakið sérstaka athygli og hlotið lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Mozart á árlegum kertaljósatónleikum í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu og á strengjakvartettum Shostakovitch og Bartók á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík.

Hópurinn hefur m.a leikið á Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, Kammermúsíkklúbbnum,15:15 Tónleikum og á Norrænum sumartónleikum í Norræna húsinu, Salisbury hátíðinni í Bretlandi og gefið út geisladisk með verkum eftir W. A. Mozart.

Camerarctica var Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar árið 2005 og heldur upp á 30 ár starfsafmæli á næsta ári.