Tix.is

Um viðburðinn

AUKASÝNING vegna fjölda áskorana.
5. og 6. júní seldust upp í rjáfur. En sýningar verða ekki fleiri, síðasti séns að sjá þetta:

Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz frumsýnir Djúpt inn í skóg (Into the Woods) í Gaflaraleikhúsinu.
Leikstjóri er Orri Huginn Ágústsson og tónlistarstjóri Ingvar Alfreðsson.

Þessi víðfrægi söngleikur, með tónlist og texta eftir goðsögnina Stephen Sondheim og handrit eftir James Lapine, er stórkostlegt og fremur „fullorðið“ sjónarhorn á mörg þekktustu ævintýri og þjóðsögur vestrænnar menningar. Hann var frumsýndur árið 1986 og hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. Tony verðlaun fyrir tónlist og handrit. Uppsetningar á verkinu hafa endurtekið unnið til virtra verðlauna, nú síðast árið 2002 (Tony-verðlaunin) og 2011 (Sir Laurence Olivier verðlaunin). Nýlega var gerð kvikmynd upp úr verkinu þar sem Meryl Streep fór meðal annars með hlutverk nornarinnar.

Sagan hverfist um bakarahjón sem eiga sér þá ósk að eignast barn; Öskubusku sem langar í betra líf og á ball; og Jóa sem óskar þess að kýrin hans mjólkaði. Þegar bakarinn kemst að því að nornin í næsta húsi hefur lagt á hann álög hefst ferðalag sem leiðir persónurnar djúpt inn í skóg í leit að ósk sinni og það sem þær gera þar hefur afdrifaríkar afleiðingar. Gættu þín á hvers þú óskar þér… því óskin gæti ræst.

Er norn alltaf góð eða slæm; eða kannski bara pirruð? Er Jói og baunagrasið saga af hetju eða hálfvita? Hvað er Rauðhetta að spá? Eða úlfurinn? Og af hverju býr amma hennar ein inni í skógi? Og hvað er þessi dularfulli maður að vilja? Ástarævintýri, ófrjósemi, sjálfselska, samsettar fjölskyldur, manndráp og maís! Allt getur gerst þegar maður villist djúpt inn í ævintýraskóginn.

Tekið skal fram að umfjöllunarefnin hafa fullorðinslega undirtóna.

Þetta er áttunda uppsetning söngleikjadeildar Söngskóla Sigurðar Demetz. Leikhópurinn hefur staðið af sér veirukófið og leggur nú allt í sölurnar til að sýna áhorfendum glænýja og stórskemmtilegu sviðsetningu og leiða þá djúpt inn í skóg.

Íslensk þýðing: Einar Aðalsteinsson
Aðlögun þýðingar: Orri Huginn Ágústsson og Þór Breiðfjörð
Söngleikjadeildarteymið: Ingvar Alfreðsson (meðleikari/tónlistarstjóri), Jana María Guðmundsdóttir (söngkennari), Orri Huginn Ágústsson (leiklist/leikstjóri) og Þór Breiðfjörð (söngkennari og deildarstjóri).
Persónur og leikendur (í þeirri röð sem þau birtast):
Sögumaður: Guðrún Rósa Róbertsdóttir
Öskubuska: Una Ragnardóttir
Jói: Natalía Sif Stefánsdóttir
Móðir Jóa & móðir Öskubusku: Rakel Rósa Ingimundardóttir
Mjólkurhvít: Embla Sif Ólafsdóttir
Bakari: Páll Sigurður Sigurðsson
Kona bakarans: Ebba Dís Arnarsdóttir
Stjúpa Öskubusku & amma: Erla Ruth Möller
Blómhildur: Katrín Guðnadóttir
Bjarthildur: Sóley Arngrímsdóttir
Blíðhildur: Katrín Anna Karlsdóttir
Faðir Öskubusku & úlfur: Máni Emeric Primel Steinþórsson
Rauðhetta: Hrefna Hlynsdóttir
Norn: Salka Gústafsdóttir
Dularfullur maður: Einar Steinn Valgarðsson
Garðabrúða: Matthildur Steinbergsdóttir
Prins Garðabrúðu: Ísak Leó Kristjánsson
Prins Öskubusku: Aron Daði Jónsson
Hirðmaður: Sif Guðmundsdóttir
Risi, hin kýrin & Mjallhvít: Kolbrún Katla Jónsdóttir
Þyrnirós, gullgæs og Harpa: Hulda Eir Sævarsdóttir

Leikstjórn og sviðshreyfingar: Orri Huginn Ágústsson
Tónlistarstjórn: Ingvar Alfreðsson
Ljósahönnun: Jóhann Bjarni Pálmason
Hljóðstjórn: Kristinn Gauti Einarsson og Kristján Sigmundur Einarsson
Leikmynd, búningar og útlit: Leikhópurinn