Tix.is

Um viðburðinn

Anna Gréta Tríó (IS/SE)

Anna Gréta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Stokkhólmi síðan 2014 og hefur á þeim tíma komið víða við. Nýverið hlaut hún þann heiður að fá boð um að koma fram á Nóbelsverðlaunathöfninni 2020 og í mars 2021 bauðst henni að halda eigin tónleika í hinu víðfræga Stockholm Concert Hall. Fyrsta sóló plata Önnu Grétu er væntanleg í janúar 2022 en á henni syngur hún og spilar eigið efni, en þar má einnig heyra í rjómanum af íslensku jazztónlistarfólki undir dyggri upptökustjórn Alberts Finnbogasonar.

Hún hefur á síðustu árum raðað að sér verðlaunum og tilnefningum, m.a. hin virtu Monica Zetterlund verðlaun en þau hlýtur árlega einn ungur og efnilegur jazztónlistarmaður í Svíþjóð. Þar að auki var hún tilnefnd til verðlaunanna Jazzkatten af sænska ríkisútvarpinu, og tilnefnd í tveimur flokkum til íslensku tónlistarverðlaunanna 2019. Anna Gréta var valin bjartasta vonin á íslensku tónlistarverðlaunum árið 2015 og hlaut viðurkenningu frá góðvinafélagi stærsta jazzklúbbs Svíþjóðar, Fasching í Stokkhólmi árið 2018. Anna Gréta hefur verið virk sem tónskáld og var meðal annars valin til þess að semja verk fyrir stjörnupíanóleikarann Bobo Stenson og Norrbotten big band haustið 2019.

Á Jazzhátíð Reykjavíkur kemur Anna Gréta fram með tríói sem auk hennar skipa þeir Johan Tengholm á kontrabassa og Einar Scheving á trommur. Sérstakur gestur á tónleikunum verður kynntur síðar.

Anna Gréta (IS) : píanó / söngur
Johan Tengholm (SE) : kontrabassi
Einar Scheving (IS) : trommur

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ambrose Akinmusire Quartet (US)

Það er mikill heiður fyrir Jazzhátíð Reykjavíkur að bjóða Ambrose Akinmusire Quartet velkomna á svið í Norðuljósasal Hörpu þann 1. september næstkomandi. Ambrose Akinmusire fékk tilnefningu á Grammy verðlaunahátíðinni 2020 fyrir nýjustu plötu sína On The Tender Spot Of Every Calloused Moment en hún er gefin út af Blue Note útgáfufyrirtækinu eins og langflestar fyrri plötur hans.

Það hljómar mótsagnakennt en á 15 ára ferli hefur Ambrose Akinmusire staðsett sig bæði í miðju og á jaðri jazztónlistar eins og nýlegar tengingar hans við klassíska tónlist og hip hop sýna. Hann er óþreytandi í leit sinni að þversögnum og í tónsmíðum sínum, sem eru jafn ljóðrænar og þokkafullar eins og þær eru djarfar og ósveigjanlegar, sækir hann innblástur í önnur listform og lífið almennt. Óhefðbundin nálgun á hljóðheim og tónsmíðar hefur reglulega komið honum ofarlega á lista gagnrýnenda auk þess að hann hefur hann hlotið ótal styrki og umboð (e. commissions), meðal annars frá Doris Duke Foundation, MAP Fund, Kennedy Center og hinni frægu jazzhátíð Monterey Jazz Festival. Á sama tíma og viðurkenningarnar hrannast upp heldur Ambrose Akinmusire áfram að leita lengra og komast þangað sem hann hefur ekki komist áður og á það við um hann sjálfan, hljóðfærið, tónlistartegundir, form og stíl, fyrirfram ákveðnar hugmyndir og raunar allt sem er einhverjum takmörkum háð. Andlegt og hagnýtt gildi listarinnar er það sem helst hvetur hann áfram og því leitast hann við að eyða mýtunni um að tónlist hans sé fyrst og fremst byggð á bóklegri þekkingu og langskólagöngu. Með tónlist sinni reynir hann að búa til áferðarfallegt tilfinningalegt landslag sem segir sögur samfélagsins, skrásetur nútímann, og setur ný viðmið. Saga tónlistarlegrar nýsköpunar og framþróunar á meðal þeldökkra stendur honum mjög nærri, og hefur hann helgað sig henni án þess að hún verði heftandi.

Ambrose Akinmusire : trompet
Sam Harris : píanó
Harish Raghavan : bassi
Justin Brown : trommur