Tix.is

Um viðburðinn

Hróðmar Sigurðsson

Gítarleikarinn Hróðmar Sigurðsson lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH árið 2017. Síðan þá hefur hann starfað sem tónlistarmaður og leikið tónlist með ýmsum tónlistarmönnum þvert á stíla t.d. Ife Tolentino, Elísabetu Ormslev, Teiti Magnússyni, Elísabetu Eyþórsdóttur, Ingibjörgu Turchi og fleirum. Einnig hefur hann leikið í hljómsveitum í sýningum í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu.

Frá árinu 2020 hefur Hróðmar starfrækt hljómsveit sína sem samanstendur af einvalaliði og hefur hún komið fram m.a í Mengi og á Bryggjujazzi. Lög og útsetningar eru í höndum Hróðmars en með hljómsveitinni hefur þróast hljóðheimur sem hverfist um rafgítarinn og haganlega samofnar brassútsetningar sem kallast á við kraumandi takt hjá ryþmasveit og má heyra innblástur frá hinum ýmsu tónlistarstílum. Tónleikarnir á Jazzhátíð Reykjavíkur eru útgáfutónleikar fyrstu plötu Hróðmars sem er samnefnd honum og er hún gefin út af Reykjavik Record Shop. Platan var tekin upp í Sundlauginni vor og haust 2020, Birgir Jón Birgisson sá um upptökustjórn, Kjartan Kjartansson hljóðblandaði og hljómjafnaði og plötuumslag hannaði Þórdís Erla Zoega.

Hróðmar Sigurðsson : rafgítar
Ingibjörg Elsa Turchi : rafbassi
Magnús Jóhann Ragnarsson : hammond orgel / hljómborð
Magnús Trygvason Eliassen : trommur
Kristofer Rodriguez Svönuson : slagverk
Elvar Bragi Kristjónsson : trompet / flugelhorn
Tumi Árnason : tenór saxófónn
Ingi Garðar Erlendsson : básúna

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Ludvig Kári Kvartett (IS/US)

Ludvig Kári Quartet mætir á nýjan leik á Jazzhátíð Reykjavíkur 2021 með Rákir, nýjan geisladisk með frumsömdum íslenskum jazzbræðingi innblásnum af þoturákum í veðrahvolfi norðursins.

Kvartettinn er skipaður úrvali jazzhljómlistarmanna og mun spila efni af disknum ásamt enn nýrra efni á hátíð þessa árs. Kvartettinn spilaði síðast á Jazzhátíð Reykjavíkur 2019 við góðar undirtektir.


Ludvig Kári Forberg : víbrafónn
Phil Doyle : saxófónar
Stefán Ingólfsson : bassi
Einar Scheving : trommur