Tix.is

Um viðburðinn

LILJA (NO/IS)

Oddrún Lilja Jónsdóttir, sem kemur hér fram undir nafninu LILJA, er íslensk/norsk tónlistarkona sem mestan part ævinnar hefur búið í Osló fyrir utan tvö ár í Reykjavík. Hún hefur skapað sér nafn á norsku jazzsenunni undanfarin ár sem gítarleikarinn í „New Conception of Jazz“ sem Bugge Wesseltoft stýrir auk þess að vera í hljómsveitinni „Moksha“ og spila tónlist Frode Haltlis í „Avant folk“.

Í september á síðasta ári sendi hún frá sér fyrstu plötuna undir eigin nafni en hún ber titilinn „LILJA: Marble“. Platan fékk 6 stjörnur af 6 mögulegum í tónlistarumfjöllun Dagsavisen og endaði efst á lista yfir bestu jazzplötur ársins þar. Einnig var platan á lista yfir bestu plötur ársins í tónlistarumfjöllun Klassekampen og tilnefnd sem plata ársins í Subject.

Tónlistin er innblásin af ferðum Oddrúnar Lilju víða um heim en hún hefur leikið staðtengda tónlist með músíköntum margra landa. Meðal annars hefur hún spilað með ragatónlistarfólki á Indlandi, gnawatónlistarfólki í Marokkó, sirkuslistamönnum í Eþiópíu og palestínsku tónlistarfólki í flóttamannabúðum í Líbanon. Þessi nýja tónlist LILJU á Marble er innblásin af reynslu hennar af þessari spilamennsku og hvert lag ber nafn borgar sem var andagiftin á bakvið það.

Oddrún Lilja Jónsdóttir (NO/IS) : gítar / rödd
Sanne Rambags (NL) : rödd
Sunna Gunnlaugsdóttir (IS) : píanó
Jo Skaansar (NO) : bassi / rödd
Erik Qvick (SE/IS) : trommur

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Kathrine Windfeld Sextet (DK/SE/PL)

Kathrine Windfeld is a rising star on the European jazz scene, not least for her bold writing for her adventurous big band”
- Jazzwise Magazine (UK)

Breska blaðið The Guardian lýsir tónsmíðum Kathrine Windfeld sem sjaldgæfri blöndu af lágstemningu og styrk og talar um marglitað samsuð af fáguðum hljómaköflum, drífandi grúvi og ljóðrænum ballöðum sem fljóta inni í kraftmiklum útsetningum.

Kathrine Windfeld hefur á stuttum tíma skapað sér nafn langt út fyrir sínar heimaslóðir í Danmörku og Skandinavíu, þökk sé þremur plötum stórsveitar hennar. AIRCRAFT (2015), LATENCY (2017) og sú nýjasta, ORCA (2020) eru allar margverðlaunaðar perlur sem hafa fengið frábæra dóma og mikið lof í alþjóðlegum ritum eins og Downbeat (USA), Le Monde (FR), Jazzthing (DE) og The Guardian (UK).

Sextett Kathrine Windfeld samanstendur af draumasveit ungra skandinavískra og pólskra tónlistarmanna sem eiga auðvelt með að blanda saman nettri nákvæmni og áköfum krafti. Blásararnir mynda hárfína samsetningu af mjög sterkum einstaklingum í þéttu og skýru samspili en fara svo á flug í sólóum sínum og hrífa hlustendur með. Bassaleikarinn Johannes Vaht og trommarinn Henrik Holst Hansen, sem einnig hafa leikið með stórsveit Kathrine Windfeld frá 2014, skila ávallt sínu með áköfum flutningi sem einkennist af nákvæmni og sköpun.

Auk þess að ferðast og spila með sínum eigin hljómsveitum þá hefur Kathrine Windfeld unnið með stórsveitum í fremstu röð og má þar nefna Danish Radio Big Band (DK), Frankfurt Radio Big Band (DE) og hinni sænsku Bohuslän Big Band. Metnaðarfull og áræðin verkefni hennar hafa einnig orðið til þess að alþjóðlegar stórstjörnur á borð við Mike Stern, Seamus Blake og Gilad Hekselman hafa leitast við að deila sviðinu með henni.

“Windfeld's band of leading young Scandinavian musicians is as tight and sharp as any you'll hear"
- The Guardian (UK)

"In the musical substance of the compositions, Kathrine Windfeld can compete with the big names in the business”
- JazzPodium (DE)

Kathrine Windfeld (DK) : píano
Marek Konarski (PL) : tenór saxófónn
Tomasz Dabrowski (PL) : trompet
Hannes Bennich (SE) : altó saxófónn
Johannes Vaht (SE) : kontrabassi
Henrik Holst Hansen (DK) : trommur