Tix.is

Um viðburðinn

Debut tónleikar Korda Samfónía
Norðurljós föstudaginn 21. maí kl 20:00

Stjórnandi: Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths
Kynnir: Jónas Sigurðsson

Hvað gerist þegar 35 manneskjur úr ólíkum áttum koma saman til að semja og flytja tónlist? Sprenglært tónlistarfólk, nemendur, sjálfsmenntað tónlistarfólk og fólk sem aldrei hefur lagt stund á tónlist. Það kemur í ljós á einstökum tónleikum í Hörpu þann 21. maí nk. er óvenjulegasta hljómsveit landsins þreytir frumraun sína.

Korda Samfónía er ný 35 manna hljómsveit, samsett af hljóðfæraleikurum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nemendum Listaháskóla Íslands og skjólstæðingum Hugarafls og Starfsendurhæfingastöðva Vesturlands, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Hljómsveitin var stofnsett í febrúar 2021 og koma hljómsveitarmeðlimir úr hinum ýmsu áttum, með mjög fjölbreyttar sögur að baki. Verkefnið er runnið undan rifjum MetamorPhonics, samfélagsmiðuðu fyrirtæki sem Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, tónlistarkona stýrir í London. Aðrir aðilar að verkefninu eru Tónlistarborgin Reykjavík og Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús.

Á efnisskrá tónleikanna verður frumflutningur glænýrrar tónlistar, sem samin er af hljómsveitarmeðlimum í sameiningu undir stjórn Sigrúnar.

Hugmyndafræði MetamorPhonics byggir á því, að til þess að fólki vegni vel í lífinu, þurfi það að upplifa sig sem gjaldgenga, virka meðlimi samfélagsins og að á það sé hlustað. Því skapar MetamorPhonics einstakan, opinn og aðgengilegan vettvang til tónsköpunar, fyrir tónlistarnemendur á háskólastigi og fólk sem stendur á krossgötum í lífinu sem er að byggja sig upp eftir margs konar áföll, t.d. heimilisleysi, atvinnuleysi eða kulnun. MetamorPhonics rekur hljómsveitir í London, Leicester, Los Angeles og nú á Íslandi.

Í kjölfar tónleikanna verða umræður um gildi tónlistar sem meðferðarúrræði innan velferðar- og heilbrigðisgeirans og mikilvægi þess fyrir starfandi tónlistarfólk og tónlistarnemendur að tengjast öllum hliðum samfélagsins.

Aðgangur ókeypis en bóka þarf miða vegna takmarkaðs miðaframboðs.