Tix.is

Um viðburðinn

Ekki einleikið - Þórunn Harðardóttir víóluleikari


Tónleikar 15:15 tónleikasyrpunnar í Breiðholtskirkju


Efnisskrá:

Johann Sebastin Bach (1685-1750)

Sóló Sónata nr. 1 fyrir fiðlu

I – Adagio

IV – Presto

 

Max Reger (1873-1916)

Sóló Svíta nr. 1 fyrir víólu í g-moll, op. 131d

I – Molto Sostenuto

II – Vivace – Andantino

III – Andante Sostenuto

IV – Molto Vivace

 

Charles Peck (1988- )

Cloak fyrir sóló víólu

  (Frumflutningur á Íslandi og í raunheimum)



Stutt æviágrip

 

Þórunn Harðardóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði þar sem hún tók við tónlistarskóla bæjarins, framhaldsdeildarpróf á víólu árið 2005 undir leiðsögn Guðmundar Kristmundssonar. Að því loknu hélt hún til Birmingham, Bretlandi til að læra hjá hinni geðþekku Rivku Golani. Eftir útskrift flutti Þórunn aftur heim til Íslands og hóf störf við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2013, þar sem hún starfar enn í dag við fiðlu- og víólukennslu auk þess að stjórna strengjasveitum skólans. Þórunn hefur tekið þátt í mörgum og margskonar tónlistarverkefnum á undanförnum árum, auk þess að drekka mikið kaffi og reka stórt heimili. Þórunn hefur sérstakan áhuga á flutningi góðrar nútíma-tónlistar og hvernig tengja má saman ólíkar stefnur og strauma, hvort ekki mega útvíkka hið formfasta tónleikaform á einhvern hátt, án þess þó að sjokkera neinn og ef til vill gera upplifun flytjandans betri skil og ná þannig til áhorfenda á annan hátt.

 

Ekki einleikið

Að spila einleikstónleika á laglínu-hljóðfæri hefur sína kosti og galla. Með þessu tónleikaformi þarf flytjandinn eingöngu að stóla á sjálfan sig, sína vinnu og sína nálgun, en á móti kemur að flytjandinn þarf líka eingöngu að stóla á sjálfan sig.  Enginn annar er í boði til að skella skuldinni á ef illa tekst til og eingöngu ein manneskja á sviðinu til að fanga athygli áhorfenda. Til að geta sinnt þessum hlutverkum gæti flytjandinn þurft að bregða sér í að minnsta kosti tvö hlutverk. Með þetta í huga ætlar flytjandi þessa tónleika ekki eingöngu að flytja verkin á hefðbundinn hátt, heldur einnig reyna (af veikum mætti) að tengja þau saman í töluðu máli. Sumar upplýsingarnar verða fræðandi, aðrar að öllum líkindum alls ekki. Flutt verða þrjú verk sem við fyrstu sýn eru ákaflega ólík, til dæmis eru þau samin á 300 ára tímabili og ef marka má heimildir (sem er vafasamt) er hvatinn að tilurð þeirra og aðstæður tónskáldanna stórkostlega mismunandi, en þegar betur er að gáð og dýpra, eiga þau fjölmargt sameiginlegt.