Tix.is

Um viðburðinn

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma glæsileg þýsk og íslensk meistaraverk undir stjórn Evu Ollikainen, aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Anna Þorvaldsdóttir er í hópi virtustu samtímatónskálda og semur fyrir frægustu hljómsveitir og tónlistarhátíðir heims. Nýtt verk hennar sem hér hljómar er pantað í sameiningu af Fílharmóníusveitunum í Berlín og New York, Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það var frumflutt í Berlín í janúar síðastliðnum og því gefst hér einstakt tækifæri til að heyra það allra nýjasta frá einu áhugaverðasta tónskáldi Íslands um þessar mundir.

Klarínettkonsert nr. 1 eftir Carl Maria von Weber er einn eftirminnilegasti konsert fyrir blásturshljóðfæri frá 19. Öld. Grímur Helgason hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár, hvort heldur er í hlutverki sínu sem klarínettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands eða sem einleikari. Hann býr yfir óvenju víðfeðmum tónlistargáfum og er jafnvígur á klassík, popp, djass og dixieland. Grímur lauk framhaldsnámi frá Tónlistarháskólanum í Amsterdam og hefur síðan leikið með ýmsum tónlistarhópum, meðal annars Caput, Hjaltalín og sígauna-djasshljómsveitinni Hrafnaspark.

Tónleikunum lýkur á hinum magnaða forleik að Tannhäuser sem er inngangur að óperu Wagners um samnefnt söngvaskáld og togstreitu hins andlega og veraldlega í lífi og list.

Kynnir á tónleikunum er Árni Heimir Ingólfsson og er þeim útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í hverju sóttvarnarhólfi. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

EFNISSKRÁ
Anna Þorvaldsdóttir: CATAMORPHOSIS (frumflutningur á Íslandi)
Carl Maria von Weber: Klarínettkonsert nr. 1
Richard Wagner: Tannhäuser, forleikur

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Eva Ollikainen

EINLEIKARI
Grímur Helgason

KYNNIR
Árni Heimir Ingólfsson