Tix.is

  • 25. mar. - Kl. 20:00
Miðaverð:2.400 - 5.700 kr.
Um viðburðinn

Stórbrotin fjórða sinfónía Mahlers hljómar á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

„Ímyndaðu þér að allur alheimurinn byrji að óma,“ sagði Mahler eitt sinn þegar hann reyndi að skýra inntak tónlistar sinnar. Tónverk hans eru flest stórbrotin og segja magnaðar sögur, en fjórða sinfónían er einstök í sinni röð. Hún er um margt hans aðgengilegasta, samin í fremur klassískum stíl. Hér eins og í öðrum sinfóníum Mahlers skín í gegn ást hans á náttúrunni, rík kímnigáfa, einstakir frásagnarhæfileikar og hrífandi, barnsleg einlægni. Lokaþátturinn er saminn við þýskt þjóðkvæði, „Himnaríkislífið,” sem lýsir töfrandi sýn barns á himnaríki.

Jóna G. Kolbrúnardóttir er í fremstu röð ungra, íslenskra söngvara en hún er búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún stundar framhaldsnám í söng. Síðustu ár hefur hún meðal annars komið fram hjá Íslensku óperunni og sem einsöngvari á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2020. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Bjarni Frímann Bjarnason en hann gegnir stöðu staðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Tónleikunum er útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 150 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum í Eldborg. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber skylda að vera með grímu á tónleikunum sem eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum gesti að gæta vel að sóttvörnum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er í Hörpu. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

EFNISSKRÁ
Gustav Mahler: Sinfónía nr. 4

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Bjarni Frímann Bjarnason

EINSÖNGVARI
Jóna G. Kolbrúnardóttir