Tix.is

Um viðburðinn

Hið íslenska gítartríó heldur útgáfutónleika í Norðurljósum, Hörpu þar sem flutt verða verk af nýútkomnum geisladisk. Öll verkin hafa sérstaklega verið samin fyrir tríóið og er elsta verkið frá 2012 og hið yngsta frá 2018. Dagskráin er afar fjölbreytt og hlustendur upplifa allt frá sólríkum ströndum Spánar til vetrarhörku norðurslóða.

Tríóið skipa Þórarinn Sigurbergsson, Þröstur Þorbjörnsson og Svanur Vilbergssson.

Hið íslenska gítartríó var stofnað árið 2011 og hefur síðan þá verið leiðandi hópur í flutningi á klassískri gítartónlist á Íslandi. Tríóið hefur flutt ný íslensk verk sérstaklega samin fyrir hópinn í bland við þekktari verk tónbókmenntanna og hefur með því markað sér sérstöðu á alþjóðlega vísu og fjölgað verkum fyrir þessa hljóðfæra samsetningu svo um munar.

Á meðal þeirra tónskálda sem samið hafa verk fyrir tríóið eru Oliver Kentish, Hróðmar I. Sigurbjörnsson, Elín Gunnlaugsdóttir, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Sveinn Lúðvík Björnsson og Ari Hálfdán Aðalgeirsson.

Oliver Kentish – Vistas, Fantasía (2012)

Gítartríóið Vistas, Fantasía fyrir 3 gítara var pantað af Hinu íslenska gítartríói og frumflutt 2012. Í verki þessu sótti ég innblástur til þess lands sem er tengt gítarnum órjúfanlegaum böndum, þ.e.a.s. Spánar og bera fjórir kaflar af fimm spænska titla; Preámbulo, eða prelúdía, Pastorela, Intermedio og Fiesta. Kafli nr. tvö er lítil fughetta. Í verkinu eru líka kaflar þar sem hljóðfæraleikarnir þurfa að syngja, klappa og slá takt á hljóðfærin sín. Í þessum verki reyni ég að kalla fram stemmingu af fjörugum spænskum skrúðgöngum og dansi.

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson – Fjórar stúdíur (2015)

Fjórar stúdíur fyrir þrjá gítara voru samdar árið 2015 fyrir Hið íslenska gítartríó. Í verkinu fléttast ýmsar stúdíur tónsmíðalegs eðlis við þær sem lúta að tæknilegum atriðum gítarsins.

Elín Gunnlaugsdóttir – Veðrabrigði (2015)

Hinar ýmsu myndir sem veðrið tekur á sig hafa alla tíð heillað mig. Verkið er skrifað á þessu sumri eftir einkar svipvindasaman vetur. Verkið einskorðar sig þó ekki bara við veðrið heldur er líka verið að vinna með ákveðna grunnþætti í tónlistinni. Í fyrsta kaflanum, Vindar, er tríólu- og fimmóluhreyfing áberandi til að skapa hina endalausu hringhreyfingu vindsins. Í öðrum kaflanum, Stillu, eru tónarnir teygðir og togaðir og er þar verið að leika sér með tvíþætta merkingu orðins stilla. Orðið er lýsing á kyrru veðri en einnig tölum við um að stilla hjóðfærið. Í lokakaflanum er líka verið að leika sér titilinn, Hörkur, tónefnið er hörkulegra og meira um endurtekna hraða hljóma; hljóma sem unnið hefur verið með í gegnum allt verkið. Verkið er skrifað að beiðni Íslenska gítartríósins.

Hildigunnur Rúnarsdóttir – 5 skissur (2016)

5 skissur eru samdar að beiðni Hins íslenska Gítartríós árið 2016. Verkið hefur yfir sér bæði fornan og nýjan blæ, tónmál tónskáldsins er fléttað inn í klassísk dansform frá renaissance og barokki.

Sveinn Lúðvík Björnsson – Gítartríó, Time in mind ? (2017)

Time in mind var skrifað fyrir Hið Íslenska Gítartríó árið 2017 af Sveini Lúðvík Björnssyni og var frumflutt á Myrkum Músíkdögum 2019. Eitt sinn er tónskáldið var á erlendri grundu gekk hann framhjá hópi sígauna sem spiluðu saman tónlist. Einn þeirra lék á gítar sem hafði líklega einhverntímann verið ágætis hljóðfæri en leit nú þannig út að efast mátti um að hann entist út lagið. Sá sem spilað á þennan gítar leit allt í einu upp í miðju lagi og kallaði til tónskáldsins “ Time in mind” og hélt síðan áfram að spila.

Verkið er í einum kafla og er á stundum afar viðkvæmt og náið, en springur á stundum út með orkumikilli og kröftugri stemmingu.

Ari Hálfdán Aðalgeirsson – Gaia (2018)

Gaia er landkönnun. Zeibekiko-rytminn tekur snemma af öll tvímæli um hvert landið er, en lönd eru best könnuð frá fleiri en einu sjónarhorni. Eftir afslappað brölt í hlíðum Ólympsfjalls þræða augun ríki Úranusar um stundar sakir og með akkerið tryggilega falið í dansinum en teygju í fíngerðri keðjunni hækkar Íkarus flugið hægt og bítandi uns svo fer sem fer. Á leiðinni niður gefst honum tóm til að endurskrifa örlög sín og í stað votrar grafar setur hann stefnuna á laufgaðan faðm Gaiu. Þeysireið gegnum miskunnarlausa ólífulundi riðlar yfirborði dansins en undiraldan veit sínu viti. Að lokum líta þau yfir farinn veg yfir hyldjúpu glasi af Metaxa og læðast hátt og snjallt til baka upp í svefnrofin.

Í þessu verki fléttast saman hrifning höfundar á hinum ósamhverfa hryn Zeibekiko-dansins og tilraunir með ólík tónmál. Eftir frjálslega innsæisvinnu í tóntegundaumhverfi er kúvent inn í rígbundið samskeytalaust svig milli kirkjuhátta í handahófskenndri röð sem síðan leiðir yfir í hálfgerða upplausn, að því er virðist, en hún varir ekki að eilífu heldur.

Sígildir sunnudagar 2020 – 2021