Tix.is

Um viðburðinn

Á þessum tónleikunum Sinfóníuhljómsveitar Íslands stjórnar Bjarni Frímann Bjarnason, staðarhljómsveitarstjóri hljómsveitarinnar, verkum eftir Bottesini og Brahms.

Þegar sinfónía nr. 3 eftir Johannes Brahms var frumflutt í Vínarborg árið 1882 voru viðtökurnar einhverjar þær bestu sem tónskáldið hafði nokkru sinni upplifað. Enda er tónlistin kröftug og áhrifamikil, byggð á stuttu stefi, F-A-F, sem Brahms sagði að táknaði orðin frei aber froh – frjáls en glaður. Einnig mun Jacek Karwan, kontrabassaleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, leika glæsilegan konsert eftir ítalska tónskáldið Giovanni Bottesini.

Ítalski kontrabassasnillingurinn og tónskáldið Giovanni Bottesini var á sinni tíð kallaður „Paganini kontrabassans“ enda voru hæfileikar hans undraverðir. Bottesini átti ævintýralega ævi, starfaði um skeið við óperuhúsið í Havana á Kúbu og var náinn vinur Verdis. Hann samdi tvo glæsilega konserta fyrir sjálfan sig að leika, og á þessum tónleikum mun Jacek Karwan, kontrabassaleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands, flytja hinn síðari þeirra, sem var saminn árið 1845.

Tónleikunum er útvarpað beint á Rás 1.

Takmarkað sætaframboð á tónleikana
Í samræmi við sóttvarnarlög er sætaframboð á tónleikana takmarkað við 100 tónleikagesti í fjórum sóttvarnarhólfum. Í það minnsta tvö auð sæti eru á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Gestum ber einnig skylda að vera með grímu á tónleikunum. Tónleikarnir eru um klukkustundarlangir án hlés. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.

EFNISSKRÁ
Giovanni Bottesini: Konsert fyrir kontrabassa nr. 2 
Johannes Brahms: Sinfónía nr. 3

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Bjarni Frímann Bjarnason

EINLEIKARI
Jacek Karwan

KYNNIR
Árni Heimir Ingólfsson