Tix.is

Um viðburðinn

Kordo kvartettinn fagnar því að 250 ár eru liðin frá fæðingu Ludwigs van Beethoven með því að flytja eitt helsta kammerverk hans, kvartett nr. 15 op. 132 í a-moll á afmælisdegi tónskáldsins. Kvartettinn er einn af lengstu kvartettum Beethovens og var saminn tveimur árum fyrir dauða tónskáldsins, þegar hann einbeitti sér öðru fremur að skrifum strengjakvartetta.


Á tónleikunum mun Kordo einnig leika strengjakvartett nr. 2 op. 13 eftir Felix Mendelssohn, sem fæddist fyrir 211 árum. Kvartettinn er einnig í a-moll og undir miklum áhrifum af kvartettum Beethovens, og sér í lagi þeim fimmtánda. Hægt er að heyra vitnað í ótal stef úr kvartett Beethovens í þessu verki, og einnig hvernig Mendelssohn þróaði áfram form og byggingu sem Beethoven vann með í sínum kvartettum


Einstakt tækifæri til að heyra tvö meistarastykki hvort á eftir öðru á einum og sömu tónleikum.


Kordo kvartettinn var stofnaður síðla sumars 2018 og hélt sína fyrstu tónleika í Norðurljósasal Hörpu í febrúar 2019. Tónleikarnir hlutu mikið lof gagnrýnenda sem sögðu hann skipa sér í röð fremstu kammerhópa landsins. Kvartettinn hefur komið fram í Reykjavík Classics tónleikaröðinni í Hörpu og í vor hélt hann nettónleika í Kúltúr klukkunni á vegum menningarhúsanna í Kópavogi en tónleikum kvartettsins sem vera áttu í Tíbrár-röðinni var aflýst vegna Covid-19. Kvartettinn skipa fiðluleikararnir Páll Palomares og Vera Panitch, víóluleikarinn Þórarinn Már Baldursson og sellóleikarinn Hrafnkell Orri Egilsson.  


Tónleikar í Salnum á afmælisdegi Ludwigs van Beethoven miðvikudaginn 16. desember 2020 kl. 20.