Tix.is

Um viðburðinn

Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Gyða Valtýsdóttir kemur fram ásamt tónlistarfólki í fremstu röð á einstökum tónleikum á Listahátíð í Reykjavík í Norðurljósum, Hörpu.

Hér rennur saman ævafornt og nýtt, heillandi útsetningar Gyðu á tónlist tónskálda á borð við galdranunnuna Hildegard von Bingen og franska dulhyggjumanninn Olivier Messiaen í bland við magnaða tónheima tónlistarfólks eins og Skúla Sverrissonar, Daníels Bjarnasonar, Kjartans Sveinssonar og Ólafar Arnalds sem ásamt fleirum eiga tónlist á nýrri plötu Gyðu, Epicycle II.

Titillinn Epicycle vísar til stjörnukerfis Ptólómeusar og vel má líkja hljóðheimi Gyðu við víðfeðmt og tilfinningaríkt sólkerfi. Hún er einn stofnmeðlima hljómsveitarinnar múm og hefur starfað með breiðum hópi listafólks úr ólíkum áttum, komið fram á tónleikum um víða veröld og samið kvikmyndatónlist. Árið 2019 vann Gyða til hinna virtu Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Eins og dómnefndin orðaði það hefur hún „mikla sérstöðu sem flytjandi og nærvera hennar á sviði er bæði heillandi og einstök – viðkvæm, óræð en jafnframt kraftmikil.“