Tix.is

Um viðburðinn

JAZZHÁTÍÐ REYKJAVÍKUR 30 ÁRA


Það er með mikilli ánægju sem Jazzhátíð Reykjavíkur býður upp á einleikstónleika með hinum einstaka Romain Collin í Fríkirkjunni mánudaginn 31. ágúst kl. 12:00.

„Romain Collin er framsýnt tónskáld, stórkostlegur jazzpíanisti og rísandi stjarna sem skín sannarlega skært í jazzheiminum“ skrifaði Jon Weber hjá National Public Radio í Bandaríkjunum. Collin fæddist í Frakklandi og býr nú New York en hann fluttist upphaflega til Bandaríkjanna til að sækja sér menntun við Berklee College of Music í Boston undir handleiðslu Dave Liebman og Joe Lovano meðal annarra.

Árið 2007 útskrifaðist Romain Collin frá hinum virta skóla „Thelonious Monk Institute of Jazz“ þar sem hann hlaut fullan námsstyrk sem píanóleikari í hljómsveit sem var sérstaklega sett saman af Herbie Hancock, Wayne Shorter og Terence Blanchard. Á þessum árum fór Collin í tónleikaferðalög með Hancock og Shorter víða um heim auk þess sem hann spilaði með mönnum eins og Marcus Miller, Jimmy Heath og Terence Blanchard. Síðan þá hefur hann numið undir handleiðslu Larry Goldings, Russell Ferrante, Ron Carter, Charlie Haden, Mulgrew Miller og Wynton Marsalis.

Romain Collin hefur gefið út fjórar plötur sem allar hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda. Samhliða því að þróa sinn eigin sólóferil leiðir hann tríó ásamt munnhörpusnillingnum Gregoire Maret og gítarleikaranum Bill Frisell en plata þeirra Americana kom út árið 2019. Auk þess er hann iðinn við kolann sem meðspilari á tónleikum og upptökum með fólki á borð við Mike Stern, John McLaughlin, Christian McBride, Lauryn Hill og Kurt Rosenwinkel.

Þetta eru tónleikar sem enginn vill missa af.