Tix.is

Um viðburðinn

Spennandi tónleikaþrenna í Flóa á Jazzhátíð Reykjavíkur fimmtudagskvöldið 3. september kl. 19:30 og 20:45. Einn miðapassi (6000 kr.) gildir á þrenna tónleikana.

Sölvi & Magnús + Hilmar Jensson í Flóa kl. 19:30

Gestir Jazzhátíðar Reykjavíkur eiga von á góðu því á þessum tónleikum fá þeir félagar Sölvi Kolbeinsson og Magnús Trygvason Eliassen góðan liðsstyrk er hinn rammgöldrótti gítaristi Hilmar Jensson stígur á stokk með þeim og úr verður tríó sem enginn ætti að missa af.

Saxófónleikarinn Sölvi Kolbeinsson og trommuleikarinn Magnús Trygvason Eliassen kynntust á íslensku tónlistarsenunni og hafa unnið mikið saman með ólíkum hópum síðustu ár. Þeir byrjuðu að spila saman sem dúó árið 2015 og hafa síðan þá haldið fjölda tónleika á tónleikastaðnum Mengi auk þess að koma fram á skemmtistaðnum Húrra og Bryggjan Brugghús. Á þessum tíma hafa Sölvi og Magnús farið í gegnum ótalmarga djass standarda og önnur lög sem þeim finnst skemmtileg, eftir höfunda eins og Thelonious Monk, John Coltrane, Paul Motian, Bud Powell og Antônio Carlos Jobim. Þeir fara gjarnan frjálst með lögin, spinna inn og út úr þeim en leggja alltaf áherslu á að týna þeim ekki.

Það þarf varla að kynna Hilmar Jensson fyrir íslensku áhugafólki um jazztónlist. Hann hefur í áraraðir verið einn fremsti gítarleikari landsins í jazz- og spunatónlist og hefur verið í framvarðasveit þeirra tónlistarlistamanna sem fást við ýmis konar tilraunir í hljóðheimum.

FLYTJENDUR:

Sölvi Kolbeinsson: saxófónn
Magnús Trygvason Eliassen: trommur
Hilmar Jensson: gítar

Kvartett Önnu Grétu í Flóa kl. 20:45

Anna Gréta Sigurðardóttir hefur verið búsett í Svíþjóð síðan 2014 og hefur, þrátt fyrir ungan aldur, orðið einn af eftirsóttustu jazzpíanistunum þar í landi. Hún hefur á síðustu árum raðað að sér verðlaunum og tilnefningum. Árið 2019 hlaut hún hin virtu Monica Zetterlund verðlaun, en þau hlýtur einn ungur og efnilegur jazztónlistarmaður í Svíþjóð á ári. Fyrir Jazzhátíð Reykjavíkur 2020 hefur Anna Gréta fengið til liðs við sig þá Sölva Kolbeinsson á saxófón, Einar Scheving á trommur og Johan Tengholm á kontrabassa og saman munu þau leika efni af plötunni “Brighter” sem nýlega var gefin út af hinu virta plötufyrirtæki Naxos. Platan var samstarfsverkefni Önnu Grétu og gítarleikarans Max Schultz, en aðrir hljóðafæraleikarar á plötunni eru Joakim Milder, Christian Spering og Magnus Gran. Platan hefur hlotið lof gagnrýnenda bæði í Svíþjóð og á Íslandi.

Með forvitnina og sköpunargleðina að vopni tekur Anna Gréta að sér bæði stærri og smærri verkefni úr mismunandi stílum jazz hefðarinnar. Hún hefur sinn eigin persónulega stíl, frábæra píanótækni og þroskað músíkalískt innsæi. Sköpunargleði hennar er smitandi – með gleði og jákvæðni í fararteskinu lýsir hún upp umhverfi sitt.

– Rökstuðningur Monica Zetterlund nefndarinnar 2019

FLYTJENDUR:

Anna Gréta Sigurðardóttir: píanó
Sölvi Kolbeinsson: saxófónn
Johan Tengholm: kontrabassi
Einar Scheving: trommur

Frelsissveit Íslands í Flóa kl. 22:00

Þjóðvor vorþjóðarinnar dregið niður í forarvilpu smásála.

Á tíu ára afmælisári Frelsissveitar Íslands verður frumflutt verk eftir Hauk Gröndal í 8 þáttum fyrir níu manna band. Verkið er einslags klippiverk með flutningi á textaslitrum og spuna raddlistamannsins Sverris Guðjónssonar í samspili við fjölskrúðugan hóp ævintýragjarnra spunamanna.

Andi mennskunnar hefur sig til flugs í tilraun til að kæfa heftandi öfl fordóma, úrkynjunar og smásálarskapar.

FRELSISSVEIT ÍSLANDS:

Haukur Gröndal: tréblásturshljóðfæri
Óskar Guðjónsson: saxófónn
Snorri Sigurðarson: trompet
Samúel Jón Samúelsson: básúna
Kjartan Valdemarsson: píanó
Birgir Steinn Theodórsson: kontrabassi
Magnús Trygvason Eliassen: trommur
Pétur Grétarsson: slagverk
Sverrir Guðjónsson: raddir