Tix.is

Um viðburðinn

Allra veðra von er nýsirkussýning þar sem sirkuslistin er notuð til að skoða tengsl mannsins við veðrið. Frá upphafi hefur veðrið verið stærsti örlagavaldur lífs á norðlægum slóðum, en með nútíma tækni, farartækjum, húsnæðiskosti og samfélagsgerð hafa bein áhrif veðurs á líf okkar dvínað. Gjörvöll menning Íslendinga er þó sannarlega lituð af áhrifum þessa fyrsta og síðasta umræðuefnis landans og þegar litið er til framtíðar er ekki hjá því komist að horfast í augu við veðrið og þau tengsl sem við höfum við það.


Tungumál sirkuslistarinnar er myndrænt og hrífandi form sem nær til áhorfanda á breiðum aldri óháð tungumáli. Akróbatík, áhætta, grín og glens, ljóðrænar myndir og loftfimleikar flétta saman sögur af mönnum og veðri.
Verkið verður sett upp í Tjarnarbíó og utandyra víðsvegar um landið sumarið 2021.


Sirkuslistahópurinn Hringleikur var stofnaður árið 2018 af hópi sirkusfólks með það markmið að styrkja sirkusmenningu á Íslandi og kynna Íslendinga fyrir fjölbreyttum möguleikum sirkuslistarinnar.

Verkið er unnið í samstarfi við Miðnætti leikhús.

Verkið er styrkt af Leiklistarráði, Starfslaunasjóði listamanna, Uppbyggingasjóði Austurlands og Reykjavíkurborg.

Ath. Eftir sýninguna 22. september verður Q&A með leikhópi og leikstjóra verksins. Þar geta áhugasamir fengið að vita meira um listræna ferlið og hvernig það var að semja skapandi sirkus sýningu.

Leikhópur / Höfundar: Bryndís Torfadóttir, Eyrún Ævarsdóttir, Jóakim Meyvant Kvaran, Nick Candy, Thomas Burke
Leikstjórn: Agnes Wild
Búninga- og sviðsmyndahöfundur: Eva Björg Harðardóttir
Tónlistarstjórn: Sigrún Harðardóttir
Ljósahönnun: Friðþjófur Þorsteinsson
Framkvæmdarstjórn: Karna Sigurðardóttir