Tix.is

  • 03. nóv. - Kl. 19:30
Miðaverð:3.990 - 4.400 kr.
Um viðburðinn

Salurinn og landslið píanóleikara á Íslandi fagna 250 ára afmæli Ludwigs van Beethoven með tónleikaröðinni Beethoven í 250 ár.

 

Beethoven samdi 32 píanósónötur sem spanna nær alla ævi hans eða árin 1795 – 1827. Nú hafa píanóleikarar á Íslandi tekið sig saman og sameinast um að flytja allar píanósónöturnar á 9 tónleikum í Salnum.

 

Efnisskrá:

 

Píanósónata nr. 8 í c-moll, opus 13 (Pathétique)
Píanóleikari:       Einar Bjartur Egilsson    

 

Píanósónata nr. 30 í E-dúr, opus 109
Píanóleikari:       Anna Málfríður Sigurðardóttir

                                           

Hlé

 

Píanósónata nr. 22 í F-dúr, opus 54
Píanóleikari:       Helgi Heiðar Stefánsson

 

Píanósónata nr. 23 í f-moll, opus 57 (Appassionata)
Píanóleikari:       Eva Þyri Hilmarsdóttir


Arnar Jónsson leikari les stutta pistla úr þýðingum Árna Kristjánssonar píanóleikara um Beethoven á undan hverri sónötu.

 

Um flytjendur:

 

Anna Málfríður Sigurðardóttir stundaði námi við Tónlistarskóla Ísafjarðar, að því loknu tók við framhaldsnám við Guildhall School of Music í Lundúnum og útskrifaðist Anna þaðan sem einleikari og kennari. Frekara nám í píanóleik nam hún hjá prófessor Brigitte Wild. Síðan hefur Anna starfað sem píanókennari, píanóleikari og leiðbeinandi á námskeiðum bæði á Íslandi og erlendis, nú síðast við Tónskóla Sigursveins. Anna Málfríður hefur haldið tónleika víðsvegar um heim og komið fram m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveitinni í Trier.

 

Einar Bjartur Egilsson lærði á píanó í Tónlistarskóla Mývatnssveitar, Tónskóla Sigursveins og síðar í Listaháskóla Íslands. Einar stundaði að því loknu framhaldsnám í píanóleik í Hollandi. Samhliða náminu samdi hann tónverk og gaf út hljómplötuna Heimkoma árið 2016. Hann starfar nú sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga. Hann gaf nýlega út tvær hljómplötur með svissneskum píanóverkum og er um þessar mundir að vinna að nýrri plötu.

 

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn og hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri verið virk í flutningi kammer- og ljóðatónlistar. Í desember 2018 gaf hún, ásamt Erlu Dóru Vogler, út geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar í tilefni 100 ára afmælis hennar, en diskurinn hlaut tilnefningu til tónlistarverðlaunanna sem plata ársins 2018.

 

Helgi Heiðar Stefánsson lærði á píanó við Tónlistarskólann á Akureyri. Að því loknu hóf hann nám hjá Halldóri Haraldssyni í Reykjavík. Hann brautskráðist árið 2005 með bakkalár gráðu í píanóleik frá LHÍ og svo tveimur árum síðar með grunn- og framhaldsskólakennsluréttindi í tónmennt frá sama skóla. Helgi Heiðar hefur kennt á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Nýja tónlistarskólanum frá árinu 2005.

 

Beethoven í 250 ár er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs, Mennta- og menningarmálaráðuneyti – Tónlistarsjóði og Tónlistarfélagi Reykjavíkur.