Tix.is

Um viðburðinn

Salurinn og landslið píanóleikara á Íslandi fagna 250 ára afmæli Ludwigs van Beethoven með tónleikaröðinni Beethoven í 250 ár.

 

Beethoven samdi 32 píanósónötur sem spanna nær alla ævi hans eða árin 1795 – 1827. Nú hafa píanóleikarar á Íslandi tekið sig saman og sameinast um að flytja allar píanósónöturnar á 9 tónleikum í Salnum.

 

Efnisskrá:

Píanósónata nr. 22 í F-dúr, opus 54
Píanóleikari:       Helgi Heiðar Stefánsson

Píanósónata nr. 23 í f-moll, opus 57 (Appassionata)
Píanóleikari:       Eva Þyri Hilmarsdóttir


Arnar Jónsson leikari les stutta pistla úr þýðingum Árna Kristjánssonar píanóleikara um Beethoven á undan hverri sónötu.

 

Um flytjendur:

Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum og The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn og hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi lokatónleika. Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri verið virk í flutningi kammer- og ljóðatónlistar. Í desember 2018 gaf hún, ásamt Erlu Dóru Vogler, út geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar í tilefni 100 ára afmælis hennar, en diskurinn hlaut tilnefningu til tónlistarverðlaunanna sem plata ársins 2018.

 

Helgi Heiðar Stefánsson lærði á píanó við Tónlistarskólann á Akureyri. Að því loknu hóf hann nám hjá Halldóri Haraldssyni í Reykjavík. Hann brautskráðist árið 2005 með bakkalár gráðu í píanóleik frá LHÍ og svo tveimur árum síðar með grunn- og framhaldsskólakennsluréttindi í tónmennt frá sama skóla. Helgi Heiðar hefur kennt á píanó í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og Nýja tónlistarskólanum frá árinu 2005.

 

Beethoven í 250 ár er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs, Mennta- og menningarmálaráðuneyti – Tónlistarsjóði og Tónlistarfélagi Reykjavíkur.