Tix.is

Um viðburðinn

Í ár fagnar Barokkbandið Brák fimm ára starfsafmæli sínu og blæs því til tónleikaveislu í Norðurljósum í Hörpu þann 20. September næstkomandi. Á tónleikunum munu tveir af stofnendum Brákar, fiðluleikararnir Elfa Rún Kristinsdóttir og Laufey Jensdóttir leika saman hinn heimsþekkta konsert Johanns Sebastians Bach fyrir 2 fiðlur. Þá mun Brák flytja strengjasinfóníur eftir bræðurna Wilhelm Friedemann og Carl Philipp Emmanuel Bach sem og konsert fyrir fjórar fiðlur eftir Georg PHilipp Telemann. Hér verður á ferðinni einstakt tækifæri til að hlýða á nokkur af úrvalsverkum síðbarokksins, flutt af hljóðfæraleikurum á heimsmælikvarða.

BAROKKBANDIÐ BRÁK er hópur hljóðfæraleikara sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á barokktónlist, hefur sérhæft sig að hluta í þeirri tónlist erlendis og vill koma upprunaflutningi á framfæri á Íslandi. Hópurinn kemur fram í mismunandi hljóðfærasamsetningum, allt eftir efnisvali fyrir hverja tónleika og uppákomur fyrir sig. Þannig heldur hópurinn stundum smærri kammertónleika eða stærri hljómsveitartónleika, en áhersla er einnig lögð á að blanda saman einleiksverkum, kammerverkum og hljómsveitarverkum á einum og sömu tónleikunum.