Tix.is

Um viðburðinn

Eyjólfur Eyjólfsson tenór, barokkflautu- og langspilsleikari, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari flytja lútusöngva frá endurreisnartímanum, barokkaríur, sefardíska söngva og gömul þjóðlög. Þau setja sig í spor annarra í leit sinni að hinu sammannlega, sem getur aukið með okkur samúð og skilning.

 

Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta verður takmarkað sætaframboð á tónleikana. Ef tónleikagestur óskar þess að tryggja tveggja metra regluna skal taka það tímanlega fram, með því að senda póst á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

 

Miðasala fer fram á tix.is

 

Um listamennina:

 

EYJÓLFUR EYJÓLFSSON tenór lauk burtfararprófi í flautuleik og söng frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar árið 2002 og MMus gráðu frá Guildhall School of Music and Drama árið 2005.

 

Fyrsta sviðsreynsla Eyjólfs var sem hundurinn Spakur í söngleiknum Kolrassa eftir dr. Þórunni Guðmundsdóttur og fáeinum árum síðar þreytti hann frumraun sína á fjölum Íslensku óperunnar sem Skáldið í Skuggaleik Karólínu Eiríksdóttur og Sjóns. Meðal annarra hlutverka Eyjólfs á sömu fjölum má nefna Sellem í The Rake's Progress og Peppe í Pagliacci. Eyjólfur tók þátt í frumflutningi óperunnar Ragnheiðar eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson í Skálholti þar sem hann söng hlutverk Daða. Á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði söng Eyjólfur hlutverk Spóans í frumflutningi ævintýraóperunnar Baldursbráar eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson. Baldursbrá var síðar flutt í Hörpu snemma hausts 2015 í samstarfi við Íslensku óperuna. Í sama húsi síðasta haust fór Eyjólfur með hlutverk Loka Laufeyjarsonar í óperunni Þyrmskviðu eftir Jón Ásgeirsson og var í kjölfarið tilnefndur í annað sinn til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem „söngvari ársins“. Á óperusviðum erlendis hefur Eyjólfur farið með hlutverk hjá Opera North í Leeds, English National Opera í London og English Touring Opera.

 

Eyjólfur er virkur óratoríusöngvari bæði hér heima og víða um Evrópu. Nýlega fór hann með tenórhlutverk í Messías eftir Handel á tónleikaferðalagi um Norðurlöndin með Camerata Øresund og í Matteusarpassíu Bachs í Sant’Ambrogio basilíkunni í Mílanó. Á ljóðasöngssviðinu hefur Eyjólfur starfað með píanóleikurum á borð við Önnu Guðnýju Guðmundsdóttir, Dalton Baldwin, Eugene Asti og Rudolf Jansen. Hann söng Vetrarferðina eftir Schubert í samnefndu dansverki eftir brasilíska danshöfundinn Samir Calixto á Holland Dance Festival.

 

Söng Eyjólfs má finna á fjölmörgum geisladiskaupptökum. Þar á meðal eru Íslands minni – lög Atla Heimis Sveinssonar við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Aldarblik – hátíðarútgáfa á íslenskum einsöngslögum í tilefni 100 ára kaupstaðarafmæli Hafnarfjarðarbæjar, ... og fjöllin urðu kyr – hátíðardagskrá flutt á 20 ára afmæli Mosfellsbæjar og upptaka BIS-útgáfunnar á Aftansöngvum (Vespers) Rachmaninoffs ásamt Hollenska útvarpskórnum.

 

Meðal verkefna Eyjólfs á þessu starfsári ber helst að nefna hlutverk Don Curzios í Brúðkaupi Fígarós í uppfærslu Íslensku óperunnar við Þjóðleikhúsið og tónleikaferðalag um Frakkland og Sviss með tónlistarhópunum Gadus morhua og Voces Thules.

 

 

GUDRÚN JÓHANNA ÓLAFSDÓTTIR hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi og frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Hún myndar Dúó Atlantica með gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui og þau mynda Trio Aglaia með fiðluleikaranum Elenu Jáuregui. Guðrún syngur reglulega með Sonor Ensemble, sem saman stendur af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar undir stjórn Luis Aguirre. Guðrún stundaði söngnám í Tónlistarskólanum í Rvk og Guildhall School of Music and Drama í London, en þar lauk hún meistaragráðu í söng og 2 ára óperudeild skólans. Hún hefur hlotið Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall, The Miriam Licette Scholarship í Konunglega óperuhúsinu Covent Garden, 3. verðlaun í Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra í Róm, ljóðasöngsverðlaunin í hinni Alþjóðlegu söngkeppni Zamoraborgar á Spáni og verðlaun sem Besti flytjandi tónlistar eftir Rodrigo í Joaquín Rodrigo keppninni í Madríd. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins, Spænska sjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Hún hefur sungið inn á sextán geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical. Guðrún er stofnandi og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg. www.gudrunolafsdottir.com    www.duoatlantica.com   

 

Spænski gítarleikarinn FRANCISCO JAVIER JÁUREGUI stundaði nám í klassískum gítarleik í Los Angeles og Madríd áður en hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Guildhall School of Music and Drama í London, þar sem hann stundaði einnig nám í spuna og tíorbuleik. Javier hefur komið fram á tónleikum, bæði sem einleikari og flytjandi kammertónlistar, á Spáni, Ítalíu, Möltu, Íslandi, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Marokkó og Suð-Austur Asíu. Hann hefur flutt gítarkonserta eftir Vivaldi og Rodrigo (Concierto de Aranjuez) og önnur verk með sinfóníuhljómsveitunum Schola Camerata og Santa Cecilia á Spáni og Sonor Ensemble. Javier, sem einnig er tónskáld, kemur reglulega fram með Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópran sem Dúó Atlantica, með Elenu Jáuregui fiðluleikara sem Roncesvalles dúóið og með þeim báðum sem Aglaia tríóið. Javier hefur tekið þátt í verkefnum í tónlistarmenntun á vegum Wigmore Hall í London frá árinu 2001. Hann er einn stofnenda Festival Internacional de Música de Navarra (FIMNa) á Spáni og Sönghátíðar í Hafnarborg. Hann kennir klassískan gítarleik við King´s College í Madríd og St. Louis University í Madríd, þar sem hann er yfirmaður tónlistardeildarinnar. www.javierjauregui.com

 

 

Um Sönghátíð í Hafnarborg:

Sönghátíð í Hafnarborg fer fram dagana 2.-12.7.2020 undir nafninu Samkennd. Þemað er innblásið af sérstöku mikilvægi samkenndar nú þegar faraldur geisar um heiminn og skekur líf fólks. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að setja okkur í spor annarra.

 

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma klassískri sönglist á framfæri. Á hátíðinni í ár eru átta tónleikar í boði með framúrskarandi söngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga. Meðal listamanna eru fjórir söngvarar sem sungið hafa í hinu fræga Metropolitan óperuhúsi. Einnig er boðið upp á master class, söngnámskeið og tónlistarsmiðjur fyrir börn 6 mánaða – 12 ára. Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

 

Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af tónleikum. Þar birtast einnig viðtöl sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir tekur við söngvara.

 

www.songhatid.is