Tix.is

Um viðburðinn

Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta verður takmarkað sætaframboð á hverja tónleika. Ef tónleikagestur óskar þess að tryggja tveggja metra regluna skal taka það tímanlega fram, með því að senda póst á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.


Sönghátíð í Hafnarborg 2. - 12.7.2020

Tónleikar:

Fimmtudagur 2.7.2020 kl. 20:00
Sólin heim úr suðri snýr. Kammerkórinn Hljómeyki flytur íslenskar kórperlur. Stjórnandi er Þorvaldur Örn Davíðsson.

Föstudagur 3.7.2020 kl. 17:00
Fjölskyldutónleikar. Vala Guðna söng- og leikkona, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari flytja sönglög frá ólíkum löndum.

Laugardagur 4.7.2020 kl. 17:00
Óperugala. Dísella Lárusdóttir sópran, Kristján Jóhannsson tenór og Antónía Hevesi píanóleikari flytja aríur og dúetta úr ástkærum óperum.

Sunnudagur 5.7.2020 kl. 17:00
Samúðarsöngvar. Eyjólfur Eyjólfsson tenór, barokkflauta og langspil, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítar flytja sönglög frá endurreisnar- og barokktímanum.

Þriðjudagur 7.7.2020 kl. 20:00
Aldasöngur og íslenskar gersemar. Sönghópurinn Cantoque Ensemble flytur Aldasöng eftir Jón Nordal, sem einnig speglast í nýjum verkum eftir Steinar Loga Helgason og Hafstein Þórólfsson. Á efnisskránni eru einnig ástsæl íslensk kórlög. Stjórnandi er Steinar Logi Helgason.

Fimmtudagur 9.7.2020 kl. 20:00
Master class tónleikar. Nemendur á master class námskeiði Kristins Sigmundssonar flytja sönglög og óperuaríur. Hrönn Þráinsdóttir leikur með á píanó.

Laugardagur 11.7.2020 kl. 17:00
The Modern Romantic. Stuart Skelton tenór og Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari flytja ljóðatónlist sem brúar bilið á milli rómantíska tímabilsins og 20. aldarinnar.

Sunnudagur 12.7.2020 kl. 17:00
Jón Ásgeirsson – heiðurstónleikar. Kristinn Sigmundsson bassi, Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Hrólfur Sæmundsson baritón, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran, Gunnlaugur Bjarnason, baritón, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari flytja söngtónlist eftir Jón Ásgeirsson.

www.songhatid.is


Sönghátíð í Hafnarborg fer fram dagana 2.-12.7.2020 undir nafninu Samkennd. Þemað er innblásið af sérstöku mikilvægi samkenndar nú þegar faraldur geisar um heiminn og skekur líf fólks. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að setja okkur í spor annarra.

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma klassískri sönglist á framfæri. Á hátíðinni í ár eru átta tónleikar í boði með framúrskarandi söngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga. Meðal listamanna eru fjórir söngvarar sem sungið hafa í hinu fræga Metropolitan óperuhúsi. Einnig er boðið upp á master class, söngnámskeið og tónlistarsmiðjur fyrir börn 6 mánaða – 12 ára. Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af tónleikum. Þar birtast einnig viðtöl sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir tekur við söngvara.

www.songhatid.is