Tix.is

Um viðburðinn

FIMMTUDAGUR 21. JANÚAR » 19:30
Eva stjórnar Mahler – Sinfóníuhljómsveit Íslands

Tvö gleymd meistaraverk og stórbrotin sinfónía Mahlers

Sinfóníuhljómsveit Íslands
EFNISSKRÁ
Julia Perry A Short Piece for Orchestra
Dora Pejacevic Phantasie concertante
Gustav Mahler Sinfónía nr. 5

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Eva Ollikainen

EINLEIKARI
Vladimir Stoupel

Tónleikakynning í Hörpuhorni kl. 18:00.

Á þessum tónleikum stjórnar Eva Ollikainen, aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, tveimur gleymdum meistaraverkum og stórbrotinni sinfóníu Mahlers. Fimmta sinfónía Mahlers er eitt hans magnaðasta verk, tilfinningaþrungið og glæsilegt enda samið fyrir óvenjustóra hljómsveit. Adagietto-kaflinn hefur notið verðskuldaðra vinsælda, ekki síst síðan hann hljómaði í frægri kvikmynd Luchinos Visconti, Dauðinn í Feneyjum. Það er alltaf sérstakt tilhlökkunarefni þegar hinar stórfenglegu tónsmíðar Mahlers hljóma í Eldborg í allri sinni dýrð.

Julia Perry og Dora Pejacevic eru meðal þeirra tónskálda 20. aldar sem gleymdust í tímans rás þrátt fyrir að hafa samið sérlega áhugaverða tónlist. Perry lærði við Juilliard-tónlistarskólann um 1950 og vakti allmikla athygli á sinni tíð þrátt fyrir að tvennt hamlaði tónsmíðaferli hennar: hún var svört kona. Pejacevic var uppi um aldamótin 1900, af aðalsættum og eitt fyrsta króatíska tónskáldið sem lagði fyrir sig sinfónískar tónsmíðar. Phantasie concertante er eins konar píanókonsert frá árinu 1919. Frábær verk þeirra Perry og Pejacevic eru fyrst nú að hljóta þann sess sem þau verðskulda, og bæði hljóma í fyrsta sinn á Íslandi á þessum tónleikum.

Rússneski píanóleikarinn Vladimir Stoupel hefur getið sér gott orð sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarstjóri. Hann hefur haldið fjölmarga tónleika á Íslandi, meðal annars ásamt eiginkonu sinni, Judith Ingólfsson fiðluleikara, en leikur nú í fyrsta sinn einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Nánar um tónleikana á vef hljómsveitarinnar.