Tix.is

Um viðburðinn

Sinfóníuhljómsveit Íslands er mætt aftur til leiks í Hörpu og sendir landsmönnum tónlistina í beinni útsendingu á RÚV. Hljómsveitin hefur fengið til liðs við sig úrvalslið íslenskra listamanna og að þessu sinni eru það Víkingur Heiðar Ólafsson og Daníel Bjarnason sem stíga á svið með hljómsveitinni. Í ljósi rýmkunar á samkomubanni getur Sinfóníuhljómsveit Íslands nú tekið á móti gestum í Eldborg.

Víkingur Heiðar er einn dáðasti píanóleikari samtímans og hefur hlotið lof um allan heim fyrir tónleika sína og hljóðritanir á undanförnum árum. Nýjasta plata hans, Debussy / Rameau, hefur fengið stórkostlegar umsagnir gagnrýnenda og nýverið var hann á forsíðu breska tímaritsins Gramophone, sem þykir hið virtasta í faginu. Á þessum tónleikum leikur Víkingur Heiðar einn vinsælasta píanókonsert Mozarts, þann nr. 23, auk þess sem hann flytur stutt og fagurt einleiksverk eftir Jean-Philippe Rameau af nýjstu plötu sinni.

Einnig hljómar hið sívinsæla Allegretto úr sjöundu sinfóníu Beethovens, en það hefur löngum verið meðal allra dáðustu tónsmíða hans og hljómað við ýmis tækifæri, til dæmis í kvikmyndum.

Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann stjórnaði m.a. hljómsveitinni í velheppnaðri tónleikaferð hennar til Þýskalands og Austurríkis í nóvember síðastliðnum þar sem haldnir voru tónleikar m.a. í Salzburg og Berlín.

Miðasala á tónleikana er hafin
Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta hefur Eldborg verið skipt upp í nokkur fjöldatakmörkuð svæði og því verður takmarkað sætaframboð á tónleikana. Til að auka andrými milli gesta er eitt sæti á milli allra pantana en hægt er að kaupa einn stakan miða eða tvo hlið við hlið. Við bjóðum einnig upp á sæti sem tryggja tveggja metra regluna en slíka miða þarf að bóka í miðasölu Hörpu í síma 528-5050.


EFNISSKRÁ
Ludwig van Beethoven: Sinfónía nr. 7, 2. kafli
Jean-Philippe Rameau: The Arts and the Hours (úr Les Boréades)
Wolfgang Amadeus Mozart: Píanókonsert nr. 23