Tix.is

Um viðburðinn

FÖGNUM 17. JÚNÍ Á BÍLATÓNLEIKUM Á BAUHAUS PLANINU MEÐ BUBBA OG FÉLÖGUM

BÍLLINN VERÐUR SKJÓL FYRIR VEIRU OG VEÐRI
BUBBI OG BAND, HJÁLMAR, GDRN OG BRÍET

“ÞETTA VERÐUR BÍLA BOMBA”

Lýðveldisdagurinn í ár verður sögulegur vegna aðstæðna í samfélaginu og tekur allt skipulag hátíðahalda, bæði borgar og bæja, mið af reglum sóttvarnarlæknis. Í ljósi þess ætlar Bubbi Morthens ásamt fríðu föruneyti að blása í tónleika sem eru sérsniðnir að þessum reglum og í raun brjóta blað enn eina ferðina í tónlist og blása í alveg nýja tegund af tónleikum.

ENN OG AFTUR BOBA FRÁ BUBBA
Tónleikarnir verða svo kallaðir “Bíla-tónleikar” en þá mæta tónleikagestir á sínum einkabíl og raða sér upp á bílaplaninu fyrir framan Bauhaus. Við enda bílaplansins er svið og fyrir ofan það risa LED skjár og þar stíga listamennirnir; Bubbi, Hjálmar, Bríet og GDRN, á svið og til að fullkomna upplifunina verður hljóðið sent út á FM tíðni beint inn í bílanna.
Tónleikarnir verða í fullri lengd og Bubbi sem kemur fram ásamt hljómsveit hefur lofað að þetta verði bomba, eða BOBA eins og hann stafar það og þá mega landsmenn eiga von á bombu.

BÍLLINN VERÐUR SKJÓL FRÁ VEIRU OG VEÐRI
Bíllinn er því þannig lagað ekki bara skjól fyrir veirunni sem þó er blessunarlega á miklu undanhaldi í samfélaginu, heldur er bíllinn líka skjól fyrir rigningunni sem nánast er staðalbúnaður á 17. júní eins og flestir landsmenn vita.
„Fólk mæt­ir í bíl­um, fjöl­skylda eða vin­ir eða hvernig sem það er, fyr­ir fram­an risa­stórt svið og LED-skjár en hljóðinu verður streymt beint inn í bíl­inn. Ef þú ert með ágætis­kerfi í bíln­um þá ertu bara með geggjað sound,“ út­skýr­ir Bubbi.

FRÁBÆRT LISTAFÓLK SEM LOKSINS FÆR AÐ KOMA FRAM
Bubbi og Hjálmar eru ekki bara að halda þessa tónleika saman heldur eru þeir á leið í hljóðver að taka upp nýtt lag sem við munum fá að njóta á næstu vikum. Bríet hefur átt eitt vinsælasta lag ársins á Íslandi sem er lagið “Esjan” og GDRN gaf í vetur út samnefnda plötu sem gagnrýnendur keppast við að hlaða lofi. Áhorfendur mega því eiga von á frábærum tónleikum með þessu einvalaliði.

LOKSINS AÐ SPILA FYRIR “LIVE” ÁHORFENDUR
Bubbi hefur verið duglegur að koma fram á streymis tónleikum en annað hefur í raun ekki verið í boði fyrir listamenn þjóðarinnar og þannig heimsins alls. En það er ljóst að þessir tónleikar verða með þeim fyrstu sem áhorfendur geta sótt í langan tíma. “Þetta verður geggjað, ég segi það og skrifa það, þetta verður BOBA” segir Bubbi í banastuði á Facebook síðunni sinni um helgina.

MEIRA UM PRAKTÍSKA HLUTI
Miðaverði er einnig stillt upp á sögulegan hátt því að því fleiri sem koma saman í bíl, því ódýrari verður aðgöngumiðinn. Þú kemur á bílnum, leggur í stæði, stillir útvarpið á tíðni sem er úthlutað á svæðinu og nýtur þess að sjá og heyra tónleikana úr bílnum. Alvöru sviðsvagn verður settur upp og risa LED skjár svo að allir geti notið úr bílnum sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem tónleikar af þessu tagi eru haldnir á Íslandi en þeir eru að danskri fyrirmynd. Staðsetningin er frábær þar sem saman fer svæði með fjölda bílastæða með góðu aðgengi á Bauhaus planinu.

Allar nánari upplýsingar með leiðbeiningum um svæðið, aðkomu o.þ.h verða sendar á miðakaupendur þegar nær dregur.