Skip to content

Tix.is

Bíó Paradís

Um viðburðinn

Bíó Paradís, í samvinnu við Nordisk Film og TV Fond, sýnir allar myndirnar sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs dagana 18. – 21. október 2018. Myndirnar verða allar sýndar með enskum texta, og miðaverði verður stillt í hóf og kostar aðeins 800 kr inn á hverja mynd.

Hlynur Pálmason, leikstjóri Vetrarbræðra og Julius Krebs Damsbo, klippari Vetrarbræðra verða viðstaddir sýningu á myndinni. Boðið verður upp á samtal við Hlyn og Julius um samstarf þeirra í Vetrarbræðrum, en þeir vinna nú að nýrri mynd í fullri lengd, Hvítur hvítur dagur. Steven Meyers, ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöð mun stýra spjallinu, og við fáum innsýn í vinnubrögð Hlyns og Juliusar og fáum að vita meira um Hvítan hvítan dag.

Vetrarbræður er saga tveggja bræðra í kalknámubæ á köldum vetri. Yngri bróðirinn, Emil, bruggar landa úr hráefnum sem hann hnuplar í verksmiðjunni. Hann er sérvitur og utanveltu, en er umborinn af hinum námuverkamönnunum sakir eldri bróður síns, Johans. Emil þráir að njóta hylli og ástar. Þegar einn af verkamönnunum veikist beinist grunur samstundis að Emil og brugginu hans. Smám saman brjótast út átök milli Emils og hins nána samfélags námuverkamannanna. Um leið finnst Emil hann svikinn þegar hann kemst að því að Anna, konan sem hann dreymir um, er hrifin af bróður hans.

BARA EIN SÝNING - laugardaginn 20. október kl.20:00 með enskum texta!