Skip to content

Tix.is

Bíó Paradís

Um viðburðinn

Augnaráð þagnarinnar // The Look of Silence

Joshua Oppenheimer

Bandaríkin/Indónesía 2015

103 min

Augnaráð Þagnarinnar er framhald einnar mögnuðustu heimildarmyndar 21. aldarinnar, Athöfnin að Aflífa (e. The Act of Killing). Í fyrri myndinni beindi leikstjórinn Joshua Oppenheimer sjónum sínum að málaliðum sem lýsa því í smáatriðum hvernig þeir murkuðu lífið úr fjölda fólks á sjöunda áratugnum í skiplagðri útrýmingu indónesískra stjórnvalda á meintum kommúnistum. Í þessari mynd eru fórnarlömb morðanna í forgrunni. Aðalpersóna myndarinnar er sjóntækjafræðingurinn Adi sem ákveður að gera upp fortíðina við málaliðana sem myrtu bróður hans í hreinsununum. Adi ferðast til nærliggjandi þorpa þar sem morðingjarnir lifa í vellystingum og framkvæmir á þeim sjónpróf sem umbreytast í nokkurs konar yfirheyrslur um upplifun þeirra af vargöldinni. Vitnisburðir ódæðismannanna eru á tíðum vægast sagt andstyggilegir. Meistaralega unnin heimildarmynd sem gefur fyrri myndinni ekkert eftir.

 

Joshua Oppenheimer er leikstjóri og framleiðandi fæddur árið 1974 í Texas. Hann lagði stund á kvikmyndagerðarnám í Harvard og síðar í Listaháskólanum í London. Fyrsta myndin sem hann leikstýrði var heimildarmyndin THE ENTIRE HISTORY OF THE LOUISIANA PURCHASE sem kom út 1997. Árunum 2004 til 2012 eyddi hann að miklu leyti í Indónesíu þar sem hann vann gríðarmikla rannsóknarvinnu um útrýmingu kommúnista þar á sjöunda áratugnum. Sú vinna bar árangur sem erfiði því árið 2012 kom út myndin THE ACT OF KILLING sem tryggði honum fjöldamörg verðlaun á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum auk þess sem myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Oppenheimer er einnig handhafi MacArthur Genius verðlananna.