Ást í Khon Kaen // Rak ti Khon Kaen // Cemetery of Splendour
Apichatpong Weerasethakul
Tæland 2015
122 mín
„Fáir leikstjórar utan David Lynch sýna jafnmikla leikni og næmni við að túlka tungumál drauma og Apichatpong Weerasethakul“ segir gagnrýnandi Variety. ÁST Í KHON KAEN fjallar um Jenjiru, sjálfboðaliða á sjúkrahúsi sem annast hermenn sem þjást af dularfullri svefnsýki. Jen heillast af Itt, ungum og myndarlegum sjúklingi, og fær hina ófresku Keng til að skyggnast inn í furðulegan draumaheim hans. Af miklu listfengi er tælenskri sögu, minni og dulspeki fléttað saman í mynd þar sem framtíðin og fortíðin verða sem ein heild, draumar eru raunverulegir og hversdagslegir hlutir verða töfrum líkastir. ÁST Í KHON KAEN var sýnd í hinum virta Un Certain Regard flokki á Cannes en fyrri mynd leikstjórans, UNCLE BOONMEE WHO CAN RECALL HIS PAST LIVES hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullpálmann, árið 2010.
Apichatpong Weerasethakul er tælenskur leikstjóri fæddur 1970 í Bangkok en hann ól manninn í Kohn Kaen í Norður-Tælandi. Hann lauk námi í arkitektúr við Háskólann í Kohn Kaen árið 1994 en hafði þá þegar leikstýrt sinni fyrstu stuttmynd, BULLET, ári áður. Árið 1997 lauk hann meistaraprófi frá Listahálskólanum í Chicago í kvikmyndagerð. Apichatpong hefur átt afar farsælan feril en fyrsta frásagnarmynd hans í fullri lengd, BLISSFULLY YOURS (2002), hlaut Un Certain Regard verðlaunin á Cannes og tveimur árum síðar hreppti TROPICAL MALADY (2004) dómnefndarverðlaun á sömu hátíðar. Árið 2010 hlaut Apichatpong aðalverðlaun Cannes hátíðarinnar, Gullpálmann, fyrir meistaraverkið UNCLE BOONMEE WHO CAN RECALL HIS PAST LIVES. ÁST Í KHON KAEN er hans áttunda kvikmynd í fullri lengd.