Sónötur fyrir selló og píanó
Eden Sekulovic - selló
Þóra Kristín Gunnarsdóttir - píanó
Efnisskrá
Ludwig van Beethoven: Sónata fyrir selló og píanó númer 3 í A-dúr opus 69
1. Allegro ma non tanto
2. Scherzo
4. Adagio Cantabile - Allegro vivace
Fazil Say: Sónata "Fjórar borgir" fyrir selló og píanó
1. Sivas
2. Hopa
3. Ankara 4. Bodrum
Þriðja sónata Beethoven fyrir selló og píanó er sú fyrsta þar sem báðum hljóðfærum er gert jafn hátt undir höfði, en áður var píanóið í aðalhlutverki. Þar af leiðandi skapast sérstaklega skemmtilegt samspil og Beethoven tekst meistaralega að útfæra það þannig að þessi ólíku hljóðfæri nái bæði njóta sín sem best án þess að skyggja á hvort annað. Tónlistin er full af gleði og orku, þó auðvitað skiptist á skin og skúrir eins og tónskáldinu einu er lagið.
Tyrkneski píanóleikarinn og tónskáldið Fazil Say er þekktur fyrir persónulegan og opinn stíl sinn. Sónötu hans fyrir selló og píanó, “Fjórar borgir” má líta á sem ferðalag um fjórar tyrkneskar borgir. Þar koma fyrir þjóðlög, popplög, djassáhrif, þjóðdansar og fyllerísslagsmál. Sivas er borg í austurhluta Litlu-Asíu. Í þessum fyrsta kafla sækir Fazil Say innblástur til lags um þjóðlega hljóðfærið “saz” og í lok kaflans minnir hljómur sellósins á þetta hljóðfæri. Hefðbundið brúðkaup er viðfangsefni næsta kafla, en Hopa er við austurströnd Svartahafs. Horon er mjög hraður dans í 7/16- takti. Í kaflanum má einnig heyra glefsur úr þjóðlögum og fleiri þjóðdönsum af svæðinu. Næst er ferðast til Ankara, en tónskáldið ólst upp í þeirri borg. Í miðhluta kaflans má heyra uppreisnarlag frá tímum fyrstu heimsstyrjaldarinnar. Heildarhljómur kaflans er sorglegur og minnir á erfiða tíma. Bodrum er þekkt sem Saint-Tropez Tyrklands. Þar má finna fræga götu þar sem úir og grúir af börum og búllum og ómur af djassi, þjóðlagatónlist, poppi og rokki blandast saman. Í þessum kafla má líka finna brot úr þekktum tyrkneskum lögum. Hann endar svo, eins og svo mörg kvöld á þessari götu, á slagsmálum.
Eden Sekulovic sellóleikari fæddist í London árið 1995, en foreldrar hennar koma frá Svartfjallalandi og Eþíópíu. Hún lauk bakkalárnámi frá tónlistarháskóla Svartfjallalands árið 2017, en þar lærði hún hjá Dmitry Prokofiev. Síðan þá hefur Eden lært hjá Orfeo Mandozzi við tónlistarháskólann í Zürich. Hún lauk meistaragráðu í sellóleik árið 2019 með hæstu einkunn og menntar sig nú áfram í tónlistarkennslufræði og sellóleik. Frá 2016 lék Eden tvö tónleikaár með Sinfóníuhljómsveit Svartfjallalands, en fyrir það hafði hún leikið með hljómsveitinni Neue Philharmonie München. Hún hefur komið fram á fjölda alþjóðlegra tónlistarhátíða og tekið þátt í keppnum í Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Kína, Króatíu og Svartfjallalandi. Hún hefur leikið einleik og kammertónlist í virtum tónleikahúsum svo sem Berlínarfílharmóníunni, Tonhalle í Zürich og Herkulessaal í München.
Þóra Kristín Gunnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik með samspil sem aukagrein frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Árið 2020 lauk hún námi í samspili og meðleik frá listaháskólanum í Zürich, þar sem aðalkennari hennar var píanóleikarinn Friedemann Rieger. Þóra hefur tvisvar hlotið styrki úr styrktarsjóði Birgis Einarsonar, 2014 og 2017, og styrki frá KEA 2011 og 2018. Þóra starfar við píanókennslu og meðleik og vinnur með ýmsum söngvurum og hljóðfæraleikurum á Íslandi og í Sviss. Á Íslandi hefur hún komið fram m.a. á Sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, Klassík í Vatnsmýrinni, sumartónleikum Hóladómkirkju og á tónleikum á vegum Tónlistarfélags Akureyrar í Hofi.
Tónleikaröðin Velkomin heim eru haldin af FÍT-klassískri deild FÍH í samstarfi við Hörpu og styrkt af Tónlistarsjóði, Menningarsjóði FÍH og Ýli tónlistarsjóði.