Tix.is

Event info

Sunnudaginn 24. maí verða óvenjulegir hádegistónleikar í Hljóðbergi Hannesarholts. Þar leikur hinn ísraelski túbuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Nimrod Ron, ásamt samlanda sínum, Tal Ben Rei.

Nimrod Ron hefur verið túbuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í átta ár. Í maí kemur hingað til lands landi hans Tal Ben Rei til að leika með Sinfóníuhljómsveitinni og munu þeir nota tækifærið og gefa áhorfendum í Hannesarholti kost á að heyra tónlist fyrir óvenjulega hljóðfæraskipan.

Nimrod Ron hefur unnið fjölmargar alþjóðlegar keppnir í túbuleik og hefur enn fremur leikið með stórum sinfóníuhljómsveitum um allan heim. Hann kennir ennfremur túbuleik við Tónlistarháskólann í Reykjavík og hefur stuðlað að því að íslensk tónskáld semji fyrir hljóðfærið.

Landi Rons, Tal Ben Rei, hefur leikið á Baritone og básúnu frá unga aldri. Hann leikur auk þess á blásturshljóðfærið Euphonium, sem er minna þekkt hér á landi. Hann var styrkþegi bandarísk-ísraelska menningarsjóðsins á árunum 2004-10. Hann hefur leikið með Fílharmóníusveit Ísraels frá árinu 2014, auk þess að vera meðlimur í ísraelska Málmblásturskvintettinum og ísraelsku Fílharmónísku Málmblásturssveitinni.

Af þessu tilefni efna þeir félagar til hádegistónleika þar sem þeir leggja sérstaka áherslu á tónlist sem samin er fyrir þessa óvenjulegu hljóðfæraskipan.

Þeir Ron og Ben Rei hafa áður flutt viðlíka dagskrá í þjóðgarðinum Beit Guvrin, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir tónleikar voru eftirsóttustu tónleikarnir í tónleikaröð garðsins og seldust upp á mettíma.

Á efnisskrá tónleikanna eru:

Bach: Sellósvíta nr. 1 útsett fyrir Euphonium og túbu

Handel: Járnsmiðurinn

StevenVerhelst : Djöflavalsinn

Önnur tónlist eftir íslensk og ísraelsk tónskáld

Veitingastofur Hannesarholts eru opnar frá 11:30-17 og framreiða helgardögurð til 14.30.