Tix.is

Event info

Kvæðakonan góða stígur á stokk í Hannesarholti sunnudaginn 20.október kl.16. Kvæðakonan góða er hópur 11 kvenna í Reykavík sem kveður lausavísur og rímur eftir og um konur. Markmið hópsins er að halda á lofti menningararfinum okkar, endurnýja hann og endurskapa. Hópurinn kvað í Berlín í júní og tók þátt í Menningarnótt, við góðar undirtektir.

Elstu vísurnar sem Kvæðakonan góða flytur eru frá 17. öld en þær yngstu eru glænýjar. Í rímum er sögð löng samfelld saga í mörgum vísum, en lausavísur geta einnig verið frásagnir, til dæmis af atvikum úr lífi skáldkvennanna. Rímnaskáldin gömlu sóttu efnivið sinn í Íslendingasögurnar, ýmsar aðrar þekktar sögur og ævintýri, en jafnhliða voru ortar lausavísur undir sömu háttum.

Vísurnar sem fluttar verða eru langflestar eftir konur og fjalla um líf þeirra, dagleg störf, náttúrufegurð, tilfinningar eða jafnvel gríska og rómverska goðafræði. Margar stemmanna eru gamlar og sumar mjög þekktar, en aðrar eru nýjar og enn aðrar spunnar um leið og kveðið er. Markmið hópsins er að halda menningararfinum okkar á lofti og endurnýja hann um leið. Listrænn stjórnandi hópsins er Dr Ragnheiður Ólafsdóttir, sérfræðingur í kveðskap.

Veitingahús Hannesarholts er opið frá 11.30-17.00.