Tix.is

Event info

Kvikmyndasýning í Bíó Paradís

Sýnd verða tvö verk og að þeim loknum hefst lokateiti hátíðarinnar. Amanda Riffo (f. 1977) er franskur myndlistarmaður, búsett í Reykjavík. Hún lauk mastersgráðu frá École nationale supérieure des Beaux-Arts í París. Í verkum sínum skapar hún æfingar, skrásetur tilraunir sem innblásnar eru af hugrænum vísindum, ljósfræði og um leið alls kyns misskilningi. Sjónhimnur hennar hafa gjörbreyst vegna mikillar sjónskekkju og hafa verk hennar því þróast þar sem hún dregur raunveruleikann stöðugt í efa. Aphantasia verður frumsýnd sem sjónræn tilraun þar sem áhorfendum er boðið til æfingar sem sameinar ólíkar rásir skynjunar.


Þorbjörg Jónsdóttir (f. 1979) er kvikmyndagerðarmaður og myndlistarmaður með MFA-gráðu í tilraunakenndri kvikmyndagerð frá CalArts og BA-gráðu í myndlist frá LHÍ. Hún vinnur mest með tilraunakvikmynda- og vídeómiðilinn, í formi narratívra kvikmyndaverka, heimildamynda og vídeóinnsetninga. Hugðarefni hennar liggja meðal annars í etnógrafíu, landslagi og abstrakt formalisma í kvikmyndun, þar sem aðrar víddir og yfirnáttúruleg svið eru könnuð.


Þorbjörg kynntist shamaninum Don William fyrir tilviljun þegar hún var á ferðalagi í Amazon- frumskóginum í Kólumbíu árið 2000. Þessi kynni leiddu til áralangs samstarfs og vináttu sem m.a. gat af sér kvikmyndina A Tree is Like a Man, sem tilraun til að snerta aðra heima. Kvikmyndin, sem tekin er á 16mm filmu yfir nokkurra ára tímabil, fjallar um plöntulyfið Ayahuasca, landslag frumskógarins og andaheim fólksins sem þar býr.

Myndatexti : Þorbjörg Jónsdóttir, stillur úr : A tree is like a man, 2019