Tix.is

Event info

Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir koma fram í hádegistónleikaröð Hannesarholts þann 5. maí næstkomandi kl 12.15. Á efnisskránni eru lög eftir Jean Sibelius, ljóðaflokkurinn Haugtussa eftir Edvard Grieg og fjögur lög úr Sjálfstæðu fólki eftir Atla Heimi Sveinsson sem lést nýlega. Tónleikarnir eru tileinkaðir minningu hans.

Um flytjendur:
Hallveig Rúnarsdóttir hóf söngnám hjá Sigurði Demetz árið 1991. Hún lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Rutar L. Magnússon árið 1998. Það sama ár hóf hún nám hjá Theresu E. Goble við Guildhall School of Music and Drama í London og útskrifaðist þaðan með láði sumarið 2001. Hallveig hefur sungið nokkur óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Meðal hlutverka hennar eru Donna Anna í Don Giovanni eftir Mozart, Michaëla í Carmen eftir Bizet, Fiordiligi í Così fan Tutte eftir Mozart, Gianetta í Ástardrykknum eftir Donizetti, Rödd af himnum í óperunni Don Carlo eftir Verdi og Echo í Ariadne auf Naxos eftir Richard Strauss. Árið 2016 frumflutti hún hlutverk stúlku í óperu Kristians Blak, Ljós í ljóði í Færeyjum og árið 2018 frumflutti hún hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.

Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim, hún hefur sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna og hefur sungið margoft með Sinfóníuhljómsveit Íslands auk fjölda annarra hljómsveita bæði hér á landi og erlendis. Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk, t.d. á Listahátíð í Reykjavík og á Sumartónleikum í Skálholti, auk upptaka fyrir útvarp. Hallveig hefur og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.

Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 fyrir hlutverk sitt sem Michaëla í Carmen hjá Íslensku óperunni, og aftur árið 2018 fyrir hlutverk sitt sem Gilitrutt og söng sinn á Klassíkinni okkar með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Auk þess hlaut hún tilnefningu til sömu verðlauna árið 2014 fyrir söng sinn í Deutches Requiem eftir Brahms með Söngsveitinni Fílharmóníu, og árið 2016 fyrir söng sinn í 3. Sinfóníu Góreckís með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2014 fyrir sama hlutverk. Hallveig var einnig tilnefnd til Grímunnar á síðasta leikári fyrir söng sinn og leik í hlutverki Donnu Önnu í Don Giovanni eftir W. A. Mozart. Hún er listrænn stjórnandi og stofnandi tónlistarhópsins Cantoque Ensemble sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flutning sinn síðastliðin tvö ár.

Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari stundaði nám hjá Erlu Stefánsdóttur og síðar hjá Jónasi Ingimundarsyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Í Þýskalandi stundaði hún nám við tónlistarháskólann í Freiburg þar sem hún lauk píanókennaraprófi með ljóðasöngmeðleik sem aukafag og síðar við tónlistarháskólann í Stuttgart þar sem hún lauk mastersgráðu við Ljóðasöngdeild skólans. Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar auk þess að hafa hljóðritað fyrir útvarp og leikið inn á geisladiska. Hrönn hefur verið virk í flutningi nýrrar tónlistar m.a. á Myrkum Músíkdögum og með kammersveitinni Ísafold sem hlutu íslensku tónlistarverðlaunin fyrir flutning nýrrar tónlistar árið 2007. Hún hefur verið virk í uppeldisstarfi ungra söngvara, verið tónlistarstjóri uppfærslna síðustu ára hjá óperudeild Söngskólans í Reykjavík þar sem fluttar hafa verið perlur óperubókmenntanna Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík og við Menntatónlistarskólann MÍT.

Veitingahúsið í Hannesarholti er opið frá kl.11.30 og býður meðal annars uppá helgardögurð, einnig í vegan útgáfu.