Tix.is

Event info

Vorblót 2019: Yfirtaka: Konulandslag


Yfirtaka: Konulandslag eftir Önnu Kolfinnu Kuran er bæði gjörningur og tilraun sem skoðar sambönd, samstöðu og tengsl kvenna þvert á kynslóðir. Ásamt fjölda kvenna á ýmsum aldri tekur Anna Kolfinna bókstaflega yfir rými Tjarnarbíós í eina kvöldstund. Saman skapa þær sér sitt eigið konulandslag með töfrandi athöfn.


Verkið er hluti af rannsóknarverkefninu Konulandslag þar sem Anna Kolfinna veltir fram spurningum um kvenlíkamann og vægi hans innan mismunandi umhverfa. Á hvaða stöðum birtist kvenlíkaminn, hvernig birtist hann og hvar er hann fjarverandi? Hvar eru konur velkomnar og öruggar og hvar eru þær óvelkomnar? Hvar er pláss fyrir konur og líkama þeirra og hvar þurfa þær að gera innrás til þess að fá að vera með? Með Konulandslagi skoðar Anna Kolfinna, skapar og ber kennsl á landslagsmyndanir kvenna. Yfirtaka: Konulandslag var frumflutt í Mengi í janúar á þessu ári en hefur nú verið aðlagað að rýminu í Tjarnarbíói.


Verkið er hluti af Vorblóti 2019 – árlegri sviðslistahátíð Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival. Hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika sviðslistanna á einu bretti. Hátíðarpassi veitir forgang á öll 8 sviðsverk hátíðarinnar ásamt 20 % afslætti á kaffihúsi Tjarnarbíós.