Tix.is

Event info

Fimmtudaginn 14. mars verður haldin í Hannesarholti dagskrá til heiðurs höfundarverki Álfrúnar Gunnlaugsdóttur í umsjón Soffíu Auðar Birgisdóttir bókmenntafræðings og Hermanns Stefánssonar rithöfundar. Sú fyrrnefnda mun leiða gesti í gegnum höfundarverk Álfrúnar Gunnlaugsdóttur en Álfrún gaf út sitt fyrsta skáldverk, smásagnasafnið Af manna völdum, árið 1984 og síðan hefur hún sent frá sér sjö skáldsögur, sú síðasta Fórnarleikar kom út 2016.

Baksvið skáldsögunnar Brúin yfir Ebrófljótið frá árinu 2001 er borgarastyrjöldin á Spáni en nýlega var endurútgefin bók Hallgríms Hallgrímssonar, Undir fána lýðveldisins, sem segir frá þátttöku höfundar í borgarastyrjöldinni og mun Einar Kári Jóhannsson, fulltrúi Unuhúss útgáfu, segja frá tengslum þessara tveggja bóka.

Þá verður stillt upp rennibraut um Álfrúnu og verk hennar sem rithöfundar, fræðimenn og leikarar renna sér niður á leifturhraða og bjóða upp á örfyrirlestra, upplestur og óvæntar uppákomur. Einnig verða tónlistaratriði af spænskum meiði.

Meðal gesta verður Álfrún Gunnlaugsdóttir sem þó mun ekki sitja fyrir svörum enda tala verk hennar fyrir sig sjálf.