Tix.is

Event info

Viðtalstónleikar Gunnars Guðbjörnssonar

Sigrún Hjálmtýsdóttir er gestur Gunnars Guðbjörnssonar.

Gunnar Guðbjörnsson fær nokkra af þekktustu óperusöngvurum Íslands til sín í spjall í Salnum og fer með þeim yfir söngferil þeirra, lífið og listina. Að þessu sinni er Sigrún Hjálmtýsdóttir gestur Gunnars.


Sigrún Hjálmtýsdóttir hóf feril sinn á sviði dægurtónlistar. Síðar stundaði hún sígilt söngnám við Guildhall School of Music and Drama í London og hélt síðan til Ítalíu til framhaldsnáms. Hún hefur tekið þátt í margvíslegum uppfærslum og sýningum jafnt á sviði og í kvikmyndum, sem ber fjölbreyttum hæfileikum hennar vitni.

 

Frumraun sína á óperusviði þreytti hún 1988, í hlutverki dúkkunnar, Olympiu, í Ævintýrum Hoffmanns í Þjóðleikhúsinu.

Meðal annarra verkefna  hennar hjá Íslensku óperunni eru hlutverk Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Gildu í Rigoletto, Papagenu og Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni, Lúciu í Lucia di Lammermoor, Víolettu í La Traviata, Adínu í Ástardrykknum, og Rósalindu í Leðurblökunni.

Hún söng þrjú hlutverk í uppfærslu á Niflungahring Wagners, sem var samvinnuverkefni Ísl. Óperunnar, Þjóðleikhússins og Listahátíðar. Árið 2006 söng hún hlutverk Kæthe í óperunni Le Pays eftir J.G. Ropartz á Listahátíð.

Hún hefur marg oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem og erlendum hljómsveitum víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Meðal tónleikasala sem hún hefur sungið í eru; Carnegie Hall, Rudolfinum, Barbican, Fílharmonian í St. Pétursborg,  Litli Tchaikovsky salurinn í Moskvu og Gnessin salurinn í Moskvu, Eggið í Peking, Olavshallen.

Hún hefur hljóðritað fjóra geisladiska við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en alls hefur hún sungið inná tæplega 100 hljómplötur.

Árið 2001 söng hún ásamt José Carreras á eftirminnilegum tónleikum í Laugardalshöll og 2005 hlotnaðist henni sá heiður að stíga á stokk með Placido Domingo á tónleikum hans í Egilshöll.

Undan farin ár hefur hún komið fram á tónleikum í Frakklandi, Rússlandi , Bandaríkjunum og á Ítalíu svo dæmi séu nefnd.

Síðast söng Sigrún við Íslensku Óperuna í Töfraflautunni hlutverk Næturdrottningarinnar, fyrstu óperuuppfærslunni í  Eldborgarsal Hörpu 2011. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem Söngkona ársins fyrir túlkun sína á hlutverkinu.

Í janúar 2018 fór hún með hlutverk prímadonnunnar Carlottu í Phantom of the Opera.

Árið 1995 var Sigrún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og Ljónaorðu finnska ríkisins 1997.


Tónleikaröðin er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs og unnin í samstarfi við Íslensku Óperuna.