Tix.is

Event info

Söngfjelagið kynnir með stolti áttundu jólatónleikana sína!

Þemað í ár kemur frá Suður-Ameríku og verða flutt tvö verk eftir argentínska tónskáldið Ariel Ramirez, annars vegar hin þekkta Kreólamessa „Misa Criolla“ og hinsvegar helgisagan um fæðingu Krists „Navidad Nuestra“. Þá verða flutt nokkur vel valin suður-amerísk jólalög. Samkvæmt hefð Söngfjelagsins verður einnig frumflutt nýtt íslenskt jólalag. Það er samið í suður-amerískum anda af Hjörleifi Hjartarsyni kórfélaga sem einnig er annar meðlima tvíeykisins Hundur í óskilum.

Suður-ameríska hljómsveitin INTI Fusion, ásamt hinni stórfenglegu brasilísku söngkonu, Bruna Santana, koma fram á tónleikunum, en hljómsveitin var einnig gestur Söngfjelagsins fyrr á þessu ári.

Haldnir verða tvennir tónleikar. Þeir fyrri verða í Skálholtskirkju laugardaginn 8. desember kl. 16:00 og þeir síðari í Langholtskirkju sunnudagskvöldið 9. desember kl. 20:00.

Miðaverð: 4500 kr.

Um INTI Fusion
Hljómsveitin INTI Fusion var stofnuð í Noregi árið 1988 og hlaut fyrstu verðlaun á Latin American Festival of Folk Music í Stokkhólmi strax árið eftir. Hljómsveitina skipa Salvador Machaca (charango og panflautur) og Edgar Albitres (söngur og flautur) sem koma frá Perú, Hector Meriles (gítar) frá Bólivíu, Carlos Jeldes (bassi) frá Chile, Héctor Novas (trommur) frá Argentínu og Vidar Ytre-Arne (fiðla) frá Noregi. Hljómsveitarmeðlimir sækja innblástur til Andesfjalla en einnig í evrópskan og afrískan menningararf. Þeir fara óhefðbundnar leiðir í útsetningum og skapa þannig nýja og heillandi hrynjandi. INTI Fusion er af mörgum talin ein af athyglisverðustu hljómsveitum á sínu sviði á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað.

Sjá nánar á: http://www.intifusion.com/

Um Söngfjelagið
Söngfjelagið er 60 manna blandaður kór, stofnaður haustið 2011 og er löngu orðinn kunnur í tónlistarlífi höfuðborgarinnar. Fastir liðir á verkefnaskrá Söngfjelagsins eru árlegir jólatónleikar, þar sem ávallt er frumflutt nýtt verk samið sérstaklega fyrir kórinn, og sumarfagnaður í upphafi sumars. Þá flytur Söngfjelagið jazz, þjóðlög og hvaðeina sem andinn blæs kórnum í brjóst undir dyggri stjórn Hilmars Arnars Agnarssonar.