Tix.is

Event info

Messías eftir Georg Friedrich Händel

Kór Neskirkju, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir alt, Þorbjörn Rúnarsson tenór, Fjölnir Ólafsson bassi og hljómsveit flytja þetta einstaka verk í Neskirkju 2. desember, fyrsta sunnudag í aðventu. Stjórnandi er Steingrímur Þórhallsson.
Meira en 270 eru liðin frá frumflutningi Messíasar, en verkið stendur enn óhaggað sem ein af stærstu táknmyndum evrópskrar tónlistar og verkið heldur áfram að tala til milljóna áheyrenda um allan heim, á öllum menningarsvæðum og af öllum trúarbrögðum.
Messías er ástsælasta verk Händels og jafnframt eitt vinsælasta og þekktasta verk allra tíma. Verkið var samið á einungis 24 dögum sumarið 1741 og frumflutt á góðgerðartónleikum í Dublin á vormánuðum 1742. Frumflutningurinn var auglýstur 1. apríl 1742 í dagblaðinu „Dublin Journal“ og auglýsingin hljóðaði eitthvað á þessa leið: „Þær dömur sem heiðra þennan frumflutning með nærveru sinni eru vinsamlegast beðnar að koma án þess að hafa hringi í kjólum sínum til þess að koma megi fyrir fleiri gestum og auka þannig fé til góðgerðarmála. Herramenn eru beðnir að koma án sverða sinna.“ Verkið varð strax mjög vinsælt og voru allar sýningar fyrir fullu húsi.
Texti Messíasar er að mestu tekinn óbreyttur úr King James útgáfunni af Biblíunni og var raðað saman af Charles Jennens, aðaltextahöfundi Händels. Verkið skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er koma Krists boðuð og sagt frá fæðingu frelsarans í kórkaflanum „For unto us a child is born“, Því að barn er oss fætt. Í öðrum hluta er fjallað um þjáningu og dauða Jesú með dramatískum hætti. Þar er m.a. hin harmþrungna alt aría „He was despised“, Hann var fyrirlitinn. Annar hluti endar samt sem áður á bjartsýnum og sigrihrósandi nótum með hinum þekkta Hallelúja-kór. Þriðji hlutinn er nokkurs konar eftirmáli einkum um upprisuna og endurlausn. Þar er m.a. að finna hina skínandi sópran aríu „I know that my redeemer liveth“, Ég veit að lausnari minn lifir og stórkostlegan kórkafla í lokin, „Worthy is the Lamb og Amen“.