Tix.is

Event info

Erótík, óendurgoldin ást og rómantískur dauði, japönsk tónlistarhefð, undurfögur orðlaus ljóð, grískur harmsöngur.

Duo Zweisam, Katrin Szamatulski og Þóra Kristín Gunnarsdóttir, flytja verk fyrir flautu og píanó í Hannesarholti,  sem öll tengjast ljóðum og söng.

Á dagskrá eru verk frá þremur löndum og þremur öldum, stórverk flautubókmenntanna og minna þekktir gullmolar.


EFNISSKRÁ

Claude Debussy:                

Chansons de Bilitis (útsetning: Karl Lenski)

Franz Schubert:                  

Tilbrigði fyrir flautu og píanó, Trockne Blumen D802

Toshio Hosokawa:              

Lied

Felix Mendelssohn:            

Þrjú Ljóð án orða fyrir flautu og píanó (útsetning: Wilhelm Barge)

André Jolivet:                 

Chant de Linos  

UM FLYTJENDUR

Katrin Szamatulski flautuleikari lærði hjá Rolf Bissinger í Frankfurt am Main, Benoît Fromanger í Berlin og Pirmin Grehl í Luzern. Í Luzern lauk hún mastersgráðum í hljómsveitarleik og tónlistarkennslufræði. Hún hefur tekið þátt í Darmstädter Ferienkursen für Neue Musik, Impuls Akademie í Graz, Ensemble Akademie hjá Ensemble Recherche í Freiburg og Klangspuren Internationalen Ensemble Modern Akademie í Schwaz. Hún hefur unnið með þekktum tónskáldum, svo sem Beat Furrer, Bernhard Lang, Chaya Czernowin, Sofia Gubaidulina og Simon Steen-Andersen, m.a. í tengslum við Lucerne Festival.

Hún leikur reglubundið með ýmsum kammerhópum og er meðal stofnenda samtímatónlistarhópsins Lunaire og kammersveitarinnar O!contraire. Katrin hefur komið fram sem einleikari með ýmsum hljómsveitum í Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Samhliða tónlistarflutningi sínum starfar hún við rannsóknir í tónlist við háskólann í Luzern. Auk þess vinnur hún að miðlun samtímatónlistar í tónlistarkennslu. Starfsárið 2017-2018 er hún styrkþegi Internationale Ensemble Modern Akademie.

Þóra Kristín Gunnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt hjá Dýrleifu Bjarnadóttur á Akureyri og lærði síðar hjá Peter Máté í Reykjavík. Árið 2011 fluttist Þóra til Sviss til að stunda frekara tónlistarnám. Hún lauk mastersgráðu í píanókennslu og píanóleik með samspil sem aukagrein frá háskólanum í Luzern í janúar 2017. Kennari hennar í Luzern var Yvonne Lang en hún sótti einnig reglulega kammertíma hjá m.a. Christian Poltéra, Isabel Charisius, Igor Karsko og Edward Rushton. Haustið 2017 hóf hún nám í samspili og meðleik við listaháskólann í Zürich, þar sem aðalkennari hennar er píanóleikarinn Friedemann Rieger. Þóra hefur tvisvar hlotið styrk úr styrktarsjóði Birgis Einarsonar, 2014 og 2017, og styrk frá KEA árið 2011. Auk námsins í Sviss hefur hún sótt Masterclassnámskeið í einleik, ljóðaundirleik og kammertónlist. Samhliða náminu sinnir Þóra píanókennslu og kemur fram á tónleikum með söngvurum og hljóðfæraleikurum.