Tix.is

Event info

Leikritið Bláklukkur fyrir háttinn eftir Hörpu Arnardóttur var frumsýnt á Listahátíð í Reykjavík 2018. Hljóðverkið var flutt í mongólsku hirðingjatjaldi í hverjum landsfjórðungi. Á Uxahryggjum í þjóðgarði Þingvalla, Hólahólum í þjóðgarði Snæfellsjökuls, við Sandvatn syðra á Mývatnsheiði og við rætur Snæfells Vatnajökulsþjóðgarði. Gestir mættu til leiks á fyrrnefndum stöðum og gengu í fylgd leiðsögukonu hálftíma kyrrðargöngu að tjaldinu þar sem þeir stigu inn og hlýddu á verkið. Margrét H. Blöndal safnaði augnablikum í heimild. 

Viðburðurinn í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi er tvíþættur: annars vegar rennur heimildarmyndin í fjölnotarýminu og hljóðverkið í portinu á opnunartíma safnsins. Hins vegar eru sýningar þar sem leiðsögukona tekur á móti gestum og leiðir þá inn í töfraveröld hirðingjatjaldsins þar sem hlustað verður saman á Bláklukkurnar. Leikarar eru Kristbjörg Keld, Ingvar E. Sigurðsson og Harpa Arnardóttir. Einar Sigurðsson gerði hljóðmynd og var verkið tekið upp í leiklistarstúdíói ríkisútvarpsins s.l. vor.  Verkefnið er styrkt af Menningar - og menntamálaráðuneytinu og framleitt af Augnablik. 

 

Um leikritið

Leikritið Bláklukkur fyrir háttinn skapar heim sem leikur á mörkum hversdagslegs raunsæis og ljóðrænu. Smávægilegir hlutir eins og lyklar og skrár fá djúpstæðari og margræðari merkingu þegar hjónin Mæja og Siggi stíga inn í íbúð látinnar konu, heim sem er þeim bæði kunnuglegur og óþægilega framandi. Þau finna dagbækur hinnar látnu sem snerta viðkvæman streng. Margrét hin látna mætir til leiks.