Tix.is

Event info

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir 17. Nóvember á Nýja sviði Borgarleikhússins Dísablót þar sem frumflutt verða tvö ný íslensk verk við frumsamda íslenska tónlist.
Dísablót er hluti af dagskrá sviðslistahátíðarinnar SPECTACULAR. 

Verk nr. 1 eftir Steinunni Ketilsdóttur við tónlist Áskels Harðarsonar 

Hvers megum við vænta af Verki nr. 1, hinu fyrsta í samnefndri röð dansverka eftir danshöfundinn Steinunni Ketilsdóttur? Hér er á ferðinni spennandi atlaga Steinunnar að því að kynna í fyrsta sinn uppgötvanir sínar í dansverki fyrir svið. Verkið sprettur upp af rannsóknarverkefninu EXPRESSIONS: virði og vald væntinga í dansi sem Steinunn hefur leitt undanfarin tvö ár í samstarfi og samtali við alþjóðlegan hóp lista- og fræðimanna. Verkefninu er ætlað að ýta undir nýja þekkingaröflun á sviði danslistarinnar með því að kanna möguleika listformsins utan venjubundinna birtingarmynda þess, skapa áður ókunn rými og teygja anga sína um hverja þá króka og kima þar sem fjalla má á gagnrýninn hátt um fyrirfram gefnar hugmyndir okkar tengdum listgreininni. EXPRESSIONS veitir þannig rými fyrir rannsóknir og greiningu, rými sem krefst djúphygli og er vegvísir til framtíðar í danslistinni. 

Pottþétt myrkur eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson við tónlist Sigur Rósar og Valdimars Jóhannssonar  

Manneskja, vertu berskjölduð! Faðmaðu skugga þinn og máttleysi, faðmaðu myrkrið! 

Þegnunum í ríki hinna hungruðu drauga er lýst sem skepnum með veikburða háls, lítinn munn, visna útlimi og stóra, uppblásna belgi. Þetta er lén fíkninnar og þar fer fam eilíf leit að tilbúnum lausnum sem milda eiga óendanlega löngun í létti eða fullnægju. En draugarnir geta ekki satt hungur sitt, því þeir vita ekki á hvers konar næringu þeir þurfa að halda. Þeir glíma því við ærandi tómleika og eru dæmdir til að reika ráðalausir um ríki sitt um alla tíð. 

Pottþétt myrkur eftir Ernu Ómarsdóttur og Valdimar Jóhannsson er lokakaflinn í fjórleik þeirra um myrkrið og berskjöldun mannslíkamans. Fyrsta verkið í röðinni; Myrkrið faðmar, var frumsýnt á listahátíðinni Norður og niður á vetrarsólstöðum 2017. Myndbands-innsetningin Örævi sem unnin var í samvinnu við Pierre-Alain Giraud var varpað á olíutankana við Marshall-húsið við opnun Vetrarhátíðar í Reykjavík í febrúar 2018 og þriðji hlutinn, Brot úr myrkri, var loks sýndur á Listahátíð í Reykjavík 2018, í porti Listasafns Reykjavíkur – Hafnarhúss. 

Öll verkin eru flutt við nýja tónlist Sigur Rósar og Valdimars Jóhannssonar undir listrænni stjórn Ernu Ómarsdóttur og Valdimars Jóhannssonar og í samstarfi við dansara Íd.