Tix.is

Event info

KÍTÓN, félag kvenna í tónlist, stendur nú fyrir klassískri tónleikaröð í fyrsta sinn og verða haldnir tónleikar bæði á Akureyri og í Reykjavík.

 

Á fyrstu tónleikunum, Sönglagaarfur Jórunnar Viðar, sem fram fara í Hofi 6. maí koma fram Erla Dóra Vogler, mezzósópran, og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari en þær munu flytja sönglög eftir Jórunni Viðar. Erla Dóra og Eva Þyri halda upp á aldarafmæli Jórunnar Viðar árið 2018 með fjölda tónleika innan sem utan landsteinanna, og útgáfu geisladisks með söngverkum hennar.

Á öðrum tónleikunum, Lýra og söngur, kemur Inga Björk Ingadóttir fram. Inga Björk kynntist lýrunni við nám í Berlín og hefur hljóðfærið síðan þá skipað stóran sess í tónsköpun hennar.  Á tónleikunum í Hofi 15. maí syngur Inga Björk og spilar eigin lög ásamt nokkrum lögum eftir íslenskar og erlendar tónlistarkonur sem hún hefur útsett sérstaklega.

Þriðju tónleikarnir heita Konur eru konum bestar – íslenskar konur í ljóðlist og tónlist. Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari hafa löngum verið forvitnar um lög og ljóð íslenskra kvenna. Þær hafa því búið til efnisskrá með lögum íslenskra kventónskálda við ljóð íslenskra kvenljóðskálda,


Fjórðu og síðustu tónleikarnir í röðinni nefnast Mögnuð kvenskáld. Tónlistarkonurnar Margrét Hrafnsdóttir, söngkona, Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari og Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari hlakka til að takast á við efnisskrá stútfulla af estrógeni, örlögum og sögum eftir mögnuð kventónskáld. Þær munu flytja tónlist eftir þær systur Nödju og Lili Boulanger, en Lili var einmitt fyrst kventónskálda sem hlaut hin virtu tónskáldaverðlaun “Prix de Rome” árið 1913 aðeins 19 ára gömul. Einnig er á efnisskránni tónlist eftir Maríu Szymanowska sem var miðdepill Pétursborgar í byrjun 19. aldar og Goethe á að hafa verið skotinn í henni. Hafdís Bjarnadóttir og Ingibjörg Azima samtímakonur eru báðar mjög framúrstefnulegar í sínum tónsmíðum og má þær ekki vanta í jafn ljóðræna efnisskrá og hér mun hljóma. Tónlist sem óverðskuldað hefur fallið í gleymskunnar dá og nýjar tónsmíðar tvinna saman skemmtilega en óvænta upplifun.