Tix.is

Event info

JANIS JOPLIN 75 ára

Afmælistónleikar í Gamla Bíó

SÆTI (ónúmeruð)

19. janúar 2018 kl: 21:00

Janis Joplin hefði orðið 75 ára þann 19.janúar 2018. Að því tilefni blásum við til tónlistarveislu í Gamla Bíó það kvöld, þar sem að lög Janisar Joplin verða flutt af okkar færustu söngkonum og hljóðfæraleikurum.

Þær söngkonur sem fram koma eru Andrea Gylfa, Salka Sól, Bryndís Ásmunds, Stefanía Svavarsdóttir og Lay Low.

Hljómsveitin er svo alls ekki af verri endanum:
Ingi Björn Ingason, bassi og hljómsveitarstjórn
Þorvaldur Þór Þorvaldsson, trommur
Börkur Hrafn Birgisson, gítar
Birkir Rafn Gíslason, gítar
Daði Birgisson, Hammond og píanó
Elvar Bragi Kristjónsson, trompet
Sólveig Morávek, tenór sax
Albert Sölvi Óskarsson, baritone sax

Amma rokksins á Íslandi, Andrea Jónsdóttir, mun svo stíga upp á svið með skemmtilegan fróðleik um Janis og skála við salinn um leið.

Sérstakur Janis Joplin Southern Comfort drykkjarseðill frá Mekka Wine & Spirits verður á barnum, en Southern Comfort var uppáhalds drykkur Janisar.

Þessi mesta söngkona rokksins lést þann 4. október árið 1970 af völdum heróíns aðeins 27 ára að aldri, en hún fæddist í olíuhreinsunarbænum Port Arthur í Texas 19. janúar árið 1943.

Janis Joplin byrjaði að syngja og spila blús og fólktónlist í miðskóla (high school) rétt fyrir 1960 og í háskólanum í Austin í Texas var hún 1962 þekkt fyrir að ganga um berfætt með autohörpuna sína og í Levis-gallabuxum, sem þá þótti afskaplega ögrandi framkoma af hálfu kvenkyns nemanda. Opinber ferill Janisar Joplin var ekki langur.

Hún sló í gegn með hljómsveitinni Big brother & The Holding company á Monterey pop hátíðinni sem var haldin 16. – 18. Júní 1967. Fyrsta stóra plata sveitarinnar kom út í ágúst það ár: Big Brother & The Holding Company; 1968 kom Cheap Thrills, sem var algjör sprengja inn í tónlistarheiminn, svo stór að hún sprengdi sveitina, og Janis hóf sinn stutta sólóferil, sem gaf af sér 2 stórar plötur. Fyrri plata Janisar kom út 1969: I got dem ol´ Kozmic Blues again Mama! Sú síðari, Pearl, kom út í janúar 1971, u.þ.b. 3 mánuðum eftir að hún lést.

Pearl er að margra mati ein besta plata rokksögunnar. Á þessum 75 ára afmælistónleikum til heiðurs Janis Joplin verða lög af öllum plötunum sem hér eru taldar, auk þess sem Lay Low syngur efni sem tekið var upp með Janisi áður en hún varð fræg. Þrátt fyrir að 47 ár séu liðin frá dauða Janisar, skín stjarna hennar enn og hennar magnaði persónuleiki í gegnum tónlistina sem hún skildi eftir sig.

Það er magnaður hópur söngkvenna sem hér stígur á stokk til að undirstrika að Janis lifir.

Góða skemmtun.