Tix.is

Event info

Natan - Frumsýnt í október 2017

Morðið á Natani Ketilssyni og Pétri Jónsyni á Illugastöðum í Húnavatnssýslu í mars árið 1828 er eitt þekktasta og umtalaðasta sakamál  Íslandssögunnar og leiddi til síðustu aftökunnar hér á landi. Þau Agnes Magnúsdóttir vinnukona og Friðrik Sigurðsson bóndasonur voru hálshöggvin á Þrístöpum 12. janúar 1830, en bústýran Sigríður Guðmundsdóttir var send til fangelsisvistar í Kaupmannahöfn fyrir aðild sína að málinu og lést þar. Atburðir þessir tóku snemma á sig goðsagnakenndan blæ og sögusagnir fóru á kreik um ástir og afbrýði þeirra sem hlut áttu að máli og hefur saga þeirra verið endalaus uppspretta skáldsagna, leikrita, kvikmynda   og fræðigreina.

Leikhópurinn Aldrei óstelandi leggur hér út í rannsókn á tildrögum morðsins og leitar meðal annars fanga í dómsskjölum og þeim fjölmörgu fræðigreinum, bókum, kvikmyndum og sjónvarpsefni sem komið hafa út um þetta efni. Hvað varð til þess að þessar venjulegu manneskjur frömdu svo hryllilegan glæp? Er nokkurn tíma hægt að komast að sannleikanum í svo gömlu sakamáli?