Tix.is

Event info

Sannkallaðir hátíðartónleikar verða haldnir í Hallgrímskirkju 29. og 30. desember nk., en þá verður Jólaóratórían eftir J.S. Bach (1685–1750) flutt af Schola cantorum, Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrimskirkju og glæsilegum hópi íslenskra einsöngvara af yngri kynslóðinni. Stjórnandi er Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju.

Einsöngvarar:

Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran
Hildigunnur Einarsdóttir alt
Benedikt Kristjánsson tenór
Fjölnir Ólafsson bassi

Tónleikarnir eru lokin á afmælisfögnuði Schola cantorum sem fagnar 20 ára afmæli í ár. Jólaóratórían er eitt af stórvirkjum barokktímans, samin fyrir jólahátíðina 1734. Jólaboðskapurinn er rakinn í gleðisöngvum, hugljúfum aríum og íhugulum sálmum þar sem fjallað er um það kraftaverk sem varð þegar frelsarinn fæddist fyrir rúmum 2000 árum.

Nánar um tónleikana:

Um er að ræða flutning í svokölluðum upprunastíl, þar sem þess er gætt að nálgast tónlist liðinna alda út frá forsendum hennar sjálfrar, eðli og inntaki og í ljósi staðgóðrar þekkingar á túlkunarvenjum hvers tíma fyrir sig. Schola cantorum hefur einu sinni áður flutt Jólaóratóríu Bach ásamt hinni rómuðu Alþjóðlegu barokksveit í Den Haag, sem hefur margsinnis komið hingað til lands á undanförnum árum og flutt stórvirki barokktímans með kórum Hallgrímskirkju. Sveitin er skipuð tónlistarfólki sem hefur stundað nám við hina virtu barokkdeild Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi, eina mikilvægustu miðstöð rannsókna og kennslu á sviði barokktónlistar í heiminum. Samvinna sveitarinnar og Harðar Áskelssonar hefur vakið verðskuldaða athygli enda um að ræða brautryðjendastarf hérlendis í tónlistarflutningi í upprunastíl. Alþjóðlega barokksveitin kennir sig nú við Hallgrímskirkju, þar sem sá hópur sem kemur saman hér að spila er nú dreifður um allan heim og kemur aðeins saman sem slíkur í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar Áskelssonar. Schola cantorum hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar hérlendis sem erlendis fyrir vandaðan og tæran söng sinn. Nýjasta geislaplata kórsins MEDITATIO sem gefin er út hjá BIS í Svíþjóð hefur hlotið frábæra dóma erlendra gagnrýnenda.

Sjá nánar á LISTVINAFELAG.IS og SCHOLACANTORUM.IS