Tix.is

Event info

Sótsvört, pólitísk háðsádeila á þrautagöngu í velferðarþjóðfélagi.

Halaleikhópurinn frumflytur nýtt, íslenskt leikverk, Farið, eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur. Verkið var sérstaklega samið fyrir leikhópinn í kjölfar samtals milli höfundar og félaga og byggir það á reynslu og skoðunum þeirra. Leikstjóri er Margret Guttormsdóttir.

Farið er pólitískt leikrit sem gerist um borð í 100 hæða, steinsteyptu geimskipi á ferð um geiminn. Farþegar eiga þar í samskiptum við kerfið um borð og mæta örlögum sínum þegar þeir rekast í horn og passa ekki inn í réttu rammana. Áhorfendur mega búast við sótsvartri háðsádeilu á þá þrautagöngu sem margir notendur velferðarkerfisins upplifa.

Halaleikhópurinn er áhugaleikfélag sem starfað hefur óslitið frá árinu 1992. Þar starfar jafnt fólk með ýmis konar fötlun og ófatlaðir. Hópurinn hefur unnið til viðurkenninga á borð við Áhugaverðustu leiksýninguna og Kærleikskúluna. Hann er aðili að Bandalagi íslenskra leifélaga.

Ingunn Lára er ungt, upprennandi leikskáld. Hún er leiklistarmenntuð í Bretlandi og hefur unnið að nokkrum uppsetningum þar í landi sem leikari, leikstjóri og leikskáld. Halaleikhópurinn fékk hana til fundar við sig þar sem ræddar voru samfélagslegar hindranir af ýmsu tagi sem víða leynast pg leikfélagar höfðu reynt á eigin skinni. Þær verða jafnvel ekki ljósar öðrum en þeim sem rekast á þær. Þá kemur oft upp úr dúrnum að það sem er hindrun fyrir einn er ekki endilega hindrun fyrir annan. Fólk kemst iðulega að raun um að aðgengi er víða ábótavant. Þá erum við ekki eingöngu að tala um líkamlegt aðgengi heldur líka aðgengi að samfélagslegri þátttöku og jafngildi einstaklinga. Leikverkið sem Halaleikhópurinn fékk í hendurnar speglar vel umræðuna á fundinum með Ingunni. Henni hefur tekist vel að ljá sögunum rödd í ólíklegustu persónum. Meðal þeirra eru búklausir, fólk sem heyrir raddir, fólk í fjötrum og með þungar byrðar. Í farteskinu er allt þetta venjulega, gamlar ástarsorgir, biturð, hatur og þráhyggja, draumar og þrá eftir viðurkenningu, jafnvel frægð.

Leikarar: Alexander Ingi Arnarson, Anna Karín Lárusdóttir, Ásta Dís Guðjónsdóttir, Guðný Ósk Árdal, Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Kristinn Sveinn Axelsson, Kristín Aldís Markúsdóttir, Margrét Eiríksdóttir. Nanna Vilhelmsdóttir, Sigurður Örn Pétursson, Stefanía Björk Björnsdóttir.