Tix.is

Event info

Ian Anderson var á sínum tíma fenginn til að flytja valin Tull-lög og semja ný til flutnings í kirkju í Lundúnum, St Brides Church, á aðventu jóla 2003. Í framhaldinu varð til hátíðardagskrá Jethro Tull og hljómsveitin sendi frá sér jóladisk, The Jethro Tull Christmas Album, árið 2009.

Þessa jóladagskrá, Jethro Tull Christmas show hefur nú verið flutt í dómkirkjum víðs vegar um Bretland (meðal annars í Kantaraborg, Oxford, Cambridge, Newcastle, Lundúnum og Lincoln) og utan Bretlands, til dæmis í dómkirkjunni í Napólí á Ítalíu.

Á jólatónleikunum í Hallgrímskirkju flytur Jethro Tull þekkt lög úr safni sínu í hátíðarbúningi og önnur sérstaklega samin í anda jólanna. Örugglega bregður líka fyrir tónum klassískra meistara á borð við Johann Sebastian Bach og Mozart.

Leikarar taka jafnan þátt í dagskránni með upplestri og þekktir söngvarar koma fram í gestahlutverkum, til dæmis Bruce Dickinson, söngvari Iron Maiden og flugstjóri á Boeing 747, á jólatónleikum í Kantaraborg.

Tónleikarnir á Íslandi verða á svipuðum nótum, tilkynnt verður síðar hverjir koma fram með hljómsveitinni í Hallgrímskirkju.

Ian Anderson og liðsmenn hans hafa valið sér tignarheitið Íslandsvinir, svo oft hefur hljómsveitin komið hingað til að gleðja aðdáendir sína á Íslandi.

Jethro tull Ian Anderson og íslenskir áheyrendur ná alltaf sérstöku sambandi á tónleikum. Því var það engin tilviljun að Eldborgarsalur Hörpu var valinn til þess að taka upp tónverkið Thick as a brick og gefa út á DVD-diski fyrir heimsmarkaðinn árið 2014.

Misstu ekki af einstakri kvöldstund í byrjun desember, sannkölluð tónlistarveisla á stórkostlegum stað.

Athugið að húsrými er takmarkað og því getur borgað sig að tryggja sér miða tímanlega.