Tix.is

Event info

Sinfóníur Antons Bruckners eru meðal þess glæsilegasta sem samið var fyrir hljómsveit á síðari hluta 19. aldar. Mikilfenglegur hljómur þeirra er engu líkur, stórbrotnir tónflekar renna saman í áhrifamikla heild og ekki síst gefur hljómur málmblásturshljóðfæranna verkum hans einstakan lit og áferð. Sinfónían nr. 8, sem jafnan er talin með bestu sinfóníum Bruckners, var fullgerð árið 1890 og tileinkuð sjálfum Frans Jósef I. Austurríkiskeisara. „Þessi sinfónía er krúnudjásn tónlistarinnar á vorum dögum“ sagði einn hugfanginn hlustandi og tónjöfrarnir Hugo Wolf og Johann Strauss voru á sama máli.

Sinfóníur Bruckners hljóma sjaldan hér á landi og sú áttunda hefur ekki heyrst í rúman áratug. Það er því fagnaðarefni að flutningur hennar nú verði í öruggum höndum Markusar Poschners, sem hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands margoft frá árinu 2009. Það er samdóma álit manna að þessi þýski stjórnandi, sem gegnir stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar í Bremen, hafi einstakt vald á öllum blæbrigðum hljómsveitarinnar og að SÍ leiki sjaldan betur en undir hans stjórn.