Tix.is

Event info

Á hverju ári fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir í samvinnu við Listaháskóla Íslands. Keppnin er opin nemendum á háskólastigi, óháð því hvaða skóla þeir sækja, og fá þeir hlutskörpustu að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi tónleikanna er Petri Sakari, fyrrum aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem er tónleikagestum að góðu kunnur. Petri kemur reglulega fram með Sinfóníuhljómsveitinni og hefur einnig stjórnað tónleikum Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Sinfóníuhljómsveitin og Listaháskóli Íslands leiða saman hesta sína og styðja við okkar efnilegasta tónlistarfólk á leið þess inn í heim atvinnumennskunnar. Óhætt er að segja að mikil eftirvænting ríki á hverju ári í aðdraganda þessara tónleika og stemningin á tónleikunum sjálfum er engu lík. Einleikarakeppni SÍ og LHÍ fer fram á haustmánuðum 2016 og í kjölfarið verða nöfn sigurvegaranna birt á vef Sinfóníuhljómsveitarinnar.